Bílaleigur

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 10:42:21 (7132)

2000-05-09 10:42:21# 125. lþ. 109.17 fundur 570. mál: #A bílaleigur# frv. 64/2000, JB
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 125. lþ.

[10:42]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um bílaleigur, með brtt., sem hefur verið mælt fyrir.

Ég tek undir að frv. er mjög nauðsynlegt. Ekki hafa áður verið sérstök lög um bílaleigur. Bílaleigur eru orðnar afar snar þáttur í rekstri samfélagsins. Þetta er orðinn afar mikilvægur þáttur í allri uppbyggingu og þjónustu við ferðamenn, bæði innlenda og erlenda, þannig að það er mjög mikilvægt að um þessa starfsemi sé ákveðinn og traustur lagarammi þar sem kveðið er sérstaklega á um í lögum bæði réttindi og skyldur sem bílaleigur og þeir sem þær reka skuli uppfylla.

Ég vek athygli, herra forseti, á að í umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar um frv. segir:

,,Samtök ferðaþjónustunnar fagna því að í fyrsta skipti skuli samþykkt sérstök lög um bílaleigur, en þessi grein innan ferðaþjónustunnar hefur vaxið mjög mikið síðustu árin og var löngu tímabært að setja starfsemi bílaleiganna fastari skorður en hingað til hafa verið.``

Einnig segir í umsögninni, með leyfi forseta:

,,Samtökin hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að bílaleigur hafi starfsleyfi og séu skráðar hjá viðkomandi ráðuneyti, en það mun auðvelda allt eftirlit með greininni.``

Einnig tel ég mikilvægt að samgrn. hafi rétt til að hafa eftirlit með og fylgjast með leigusamningum sem bílaleigum er skylt að nota. Bæði að þeir séu samræmdir eðlilega og að lagt er til að samgrh. geti kveðið á um að þeir skuli vera í tilteknu formi þannig að öryggi og réttur neytandans sé tryggt sem best.

Í lögum sem voru samþykkt nýverið var veruleg lækkun á innflutningsgjöldum á bílum til bílaleigna. Ég vil við þetta tækifæri hvetja til þess að það komi sannanlega fram í þeim gjöldum sem leigutakar verða að greiða fyrir bifreiðar þegar þeir taka þær á leigu. Herra forseti. Ég ítreka og árétta mikilvægi þess að lækkun á þeim gjöldum, sem voru á bifreiðum til bílaleigna, komi sannanlega og áberandi fram í verðlagi á útleigu.