Tryggingagjald

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 11:39:16 (7158)

2000-05-09 11:39:16# 125. lþ. 109.27 fundur 550. mál: #A tryggingagjald# (lífeyrissparnaður) frv. 102/2000, PHB
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 125. lþ.

[11:39]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég skrifaði undir nefndarálit hv. efh.- og viðskn. án fyrirvara en þó hef ég eilítinn ímugust á þessu frv. Þetta er stýring. Það er verið að stýra fólki. Ríkið styrkir sparnað í lífeyrissjóði sérstaklega með því að leggja fram 10% framlag þannig að tryggingagjald fyrirtækjanna lækkar um allt að 0,4% samkvæmt þessu frv.

Þessi styrkur kemur bara til þeirra sem eru tekjuháir. Hann kemur ekki til þeirra sem eru tekjulágir og borga ekki skatta. Fyrir þá borgar sig ekki að borga í lífeyrissjóð með frjálsu framlagi. Ég sakna þess að ekki hafi einnig verið gripið til aðgerða til þess að styrkja þá sem eru tekjulágir.

Einnig sakna ég þess að menn skuli ekki einnig styrkja annars lags sparnað, almennan sparnað almennings sem vill spara fyrir daglegum áföllum lífsins; veikindum, slysum, dauða, atvinnumissi, skilnaði, eða til að mæta áföllum eins og ef bíll er keyrður í klessu eða óreglu, t.d. ef einhver nákominn lendir í óreglu. Til að mæta daglegum áföllum vantar illilega almennan sparnað hér á landi eins og skýrsla Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna ber með sér. Slíkur sparnaður hefur ekki verið styrktur. Jafnvel má segja meira að segja að fyrir hann sé refsað þar sem eignarskattar leggjast á þann sparnað nema rétt sé með hann farið í eignum sem eru eignarskattsfrjálsar.

Hér er því verið að stýra sparnaði inn í lífeyrissjóðina, inn í sérstakan sparnað og aðeins þeir fá styrki sem hafa góðar tekjur. Þess vegna hef ég dálítinn ímugust á þessu en stend að nál. engu að síður.