Verndun Þjórsárvera við Hofsjökul

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 13:42:52 (7418)

2000-05-10 13:42:52# 125. lþ. 114.11 fundur 604. mál: #A verndun Þjórsárvera við Hofsjökul# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[13:42]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir þátttöku í umræðunni og hæstv. umhvrh. fyrir svörin. Ég veit að sjálfsögðu, herra forseti, að í auglýsingu frá Náttúruvernd ríkisins er sagt hver mörk veranna eru eða friðlandsins, en eins og hæstv. umhvrh. benti reyndar á sjálf eru undanþáguákvæði frá þessum mörkum. Um það standa deilurnar í dag hvort ekki sé verið að ganga of langt inn á friðlandið sjálft og umhverfi þeirra með þessum undanþáguákvæðum.

Það er í sjálfu sér erfitt að gera slíkar breytingar öðruvísi en í sátt við þá aðila sem fram að þessu hafa verið í framkvæmdum á svæðinu. Ég hef samt ekki neina ástæðu til að ætla annað en að Landsvirkjun og forustumenn þess fyrirtækis hafi fullan hug á því að Þjórsárver verði ekki sköðuð með ótímabærum framkvæmdum og að ekki sé frá þeirra hálfu ástæða til að draga það að ákveða mörk þessara svæða. Þess vegna held ég, herra forseti, að mjög mikilvægt sé fyrir hæstv. umhvrh. að skoða það fljótt hvort ekki sé rétt að taka þessi undanþáguákvæði út úr reglugerðinni þannig að ekki sé hægt með samkomulagi og öðrum aðferðum sem notaðar eru að ganga sífellt á þetta svæði, því sumt af þessu uppgötvast ekki fyrr en mörgum árum seinna, jafnvel áratugum seinna, þegar uppblástur hefst og uppþornun hefur átt sér stað um lengri tíma.