Aðild að verkefninu Maður - nýting - náttúra

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 14:21:30 (7434)

2000-05-10 14:21:30# 125. lþ. 114.14 fundur 444. mál: #A aðild að verkefninu Maður - nýting - náttúra# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi JB
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[14:21]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Í febrúar 1997 samþykkti ríkisstjórnin framkvæmdaáætlun um umhverfismál sem nefnd var sjálfbær þróun í íslensku samfélagi, framkvæmdaáætlun til aldamóta. Á grundvelli þess hefur af hálfu iðnrn. og umhvrn. verið unnið að rammaáætlun sem ætlað er að leggja mat á og flokka virkjunarkosti, bæði vatnsafls og háhita m.a. með tilliti til orkugetu, hagkvæmni og annars þjóðhagslegs gildis. Um leið verða skilgreind, metin og flokkuð áhrif virkjunarkosta á náttúrufar, náttúru- og menningarminjar svo og á hagsmuni allra þeirra sem nýta gæði þessa lands. Þannig verði lagður grundvöllur á forgangsröðun virkjunarkosta með tilliti til þarfa þjóðfélagsins, bæði hvað varðar atvinnustarfsemi, varðveislu náttúrugæða, styrkingu landsbyggðar og hagsmuna allra þeirra sem nýta þessi sömu gæði með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.

Ég legg áherslu á það, herra forseti, að þetta er afar brýnt og gott mál sem hér er verið að vinna að og ég fagna því.

Þetta hefur fengið vinnuheitið Maður -- nýting -- náttúra og er ætlað að stuðla að almennri sátt um sambýli manns og náttúru.

Á grundvelli þessa verkefnis hafa síðan verið útnefndir fjórir vinnuhópar. Það eru hópar um náttúru- og minjavernd, útivist og hlunnindi, þjóðhagsmál, atvinnulíf og byggðaþróun og orkumál.

Hlutverk hópsins um útivist og hlunnindi er:

,,Að meta áhrif einstakra virkjunarkosta á útivist sem tómstundagaman, þ.e. á: Gönguferðir, jeppaferðir, hestamennsku og vatnaferðir.

Að meta áhrif einstakra virkjunarkosta á landbúnað.

Að meta áhrif einstakra virkjunarkosta á landgræðslu og skógrækt.

Að meta áhrif einstakra virkjunarkosta á lax- og silungsveiðar og skotveiðar.``

Herra forseti. Hérna er í sjálfu sér stórmál og mikilvægt sem verið er að fjalla um og vinna að rannsóknum á. Það er því afar mikilvægt að þeir aðilar sem tengjast því mjög náið eigi þarna fulla samleið og er augljóst af því sem ég nefndi áðan að þetta snertir mjög land og landgæði, vötn og vatnanýtingu í hinum dreifðu byggðum landsins.

Ég leyfi mér því, herra forseti, að beina eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. landbrh.:

1. Hvernig er háttað þátttöku eða aðild ráðherra, ráðuneytisins og stofnana þess að verkefninu Maður -- nýting -- náttúra. Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma?

2. Hve stór hluti þess fjár sem varið er til verkefnisins fer til stofnana og annarra aðila á vegum ráðuneytisins og þá hverra?