Forvarnir gegn krabbameinssjúkdómum

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 14:48:10 (7445)

2000-05-10 14:48:10# 125. lþ. 114.19 fundur 607. mál: #A forvarnir gegn krabbameinssjúkdómum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[14:48]

Fyrirspyrjandi (Árni R. Árnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbr.- og trmrh. þessi svör. Rétt er að hér er um mikilsverða starfsemi að ræða og hún hefur náð til mjög margra einstaklinga á landinu.

Ég velti því fyrir mér hvort ráðherra getur upplýst um þátttöku kvenna, hversu almenn þátttaka kvenna er í krabbameinsleitarstarfi Krabbameinsfélagsins. Ég velti líka fyrir mér hvernig ætlunin er að haga þeirri leit sem ráðherra nefndi, krabbameinsleit í blöðruhálskirtli og leit að krabbameinum í ristli.

Ég tel ekki ástæðu til að spyrja beinlínis um rannsóknirnar sem ráðherra nefndi en mér finnst skipta máli að fram komi að mér og fleirum, þar með landlækni, er kunnugt um að nokkrir læknar hér á landi, sérfræðingar í sjúkdómum í meltingarvegi, hafa nú hafið undirbúningsstarf sem leitt gæti til þess að þeir mundu hvetja til leitar að frumeinkennum sjúkdóma sem taldir eru geta leitt til krabbameina í öðrum hlutum meltingarvegs en í ristli. Raunar held ég að rétt sé að fjalla um það, geti ráðherrann gert það hér, hvort leit að krabbameini í ristli eigi að beinast að frumstigseinkennum eða lengra gengnum sjúkdómum. Það tel ég að geti skipt miklu máli.