ILO-samþykkt um aðbúnað skipverja

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 15:20:09 (7458)

2000-05-10 15:20:09# 125. lþ. 114.16 fundur 512. mál: #A ILO-samþykkt um aðbúnað skipverja# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi GHall
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[15:20]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. samgrh. fyrir svör hans. Hann veitti ítarlegri upplýsingar um þau lönd sem hafa samþykkt þessa fullgildingu ILO en sú skýrsla sem ég er með sem er gefin út 1998.

Þannig háttar til að velferðarsjóður Alþjóðaflutningaverkamannasambandsins hefur lýst miklum áhuga á því að slík aðstaða skapist hér, annaðhvort í Reykjavíkurhöfn eða Hafnarfjarðarhöfn, og hefur heitið fjármagni til stuðnings slíkri framkvæmd, ef keypt yrði húsnæði eða leigt til að búa til athvarf fyrir erlenda sjómenn. Ég á von á því, eins og fram kom í svari hæstv. samgrh., að þeir sem gæta hagsmuna Alþjóðaflutningaverkamannasambandsins eigi góðan fund með hæstv. samgrh. þar sem hægt yrði að koma þessum málum í framkvæmd. Það er mjög mikil nauðsyn á því og hér tala ég af reynslu sem farmaður í erlendri höfn. Ég hef verið í norskri sjómannastofu í breskri höfn sem sjómaður og líka í höfnum í Karíbahafinu þar sem vel var tekið á móti okkur. Ég hef þannig reynslu af því hversu góð þjónusta er veitt á slíkum sjómannastofum. En ég endurtek þakkir mínar til hæstv. samgrh.