Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna

Fimmtudaginn 11. maí 2000, kl. 11:55:10 (7504)

2000-05-11 11:55:10# 125. lþ. 116.1 fundur 405. mál: #A varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna# frv. 82/2000, GHall
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 125. lþ.

[11:55]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Spunnist hafa allmiklar umræður um þetta mál og er ekki nema von að svo sé. Ég held þó og mér finnst eins og stórum hluta þessa máls hafi verið gleymt. Menn hafa litið mjög til atvinnumöguleika og tækifæra íslenskra farmanna sem tengjast þessu máli, en það er aðeins hluti af málinu.

Hinn hluti málsins er sá sem íslensk stjórnvöld hafa látið frá sér fara og Eimskip hefur vitnað til, þ.e. að til staðar sé öflugur íslenskur kaupskipafloti.

Íslensku skipafélögin hafa verið um langt tímabil með erlend skip á leigu, svokallaðri þurrleigu, og þá hafa þau verið mönnuð íslenskum áhöfnum. Það er allt í lagi í sjálfu sér nema það tengist þó því að þeir aðilar eða skipin sjálf falla ekki undir íslenska lögsögu. Lögsaga skips sem Eimskip er með á leigu og siglir t.d. undir Panamafána er Panama. Undantekningin er að ef íslenskur sjómaður verður fyrir slysi á því skipi og skipið er í leigu hjá íslenskri kaupskipaútgerð þá geta þessir aðilar leitað til Tryggingastofnunar ríkisins um bætur.

Annað sem kann að gerast um borð í þessu skipi varðar íslensk stjórnvöld ekkert um. Þess vegna tel ég mjög brýnt að efla kaupskipaflotann jafnframt því sem við tryggjum íslenskum farmönnum frekari atvinnu. Ég hef séð það sjálfur því ég hef komið um borð í skip sem sigla undir ýmsum þjóðfánum, svokölluðum hentifánum, að þegar pappírar og skipsskjöl eru skoðuð hefur komið untantekningarlaust í ljós, ef skipsskjölin eru stimpluð, að á styrjaldartímum sé viðkomandi skip bandarískt. Til dæmis er þetta einatt svo ef pappírar skipa eru skoðaðir sem sigla undir Panamafána. Á stríðstímum er það skip bandarískt. Ég vildi líka leggja áherslu á þetta og þakka fyrir þær umræður sem hér hafa farið fram og undirtektir við tillögu mína. En ég er að leggja áherslu á tvennt, í fyrsta lagi að til sé öflugur íslenskur kaupskipafloti --- við eigum aðeins eitt kaupskip undir íslenskum fána, það er annað en áður var --- og síðast en ekki síst höfum við líka á að skipa öflugri íslenskri farmannastétt. Það er þetta tvennt sem mér finnst í anda þess sem íslensk stjórnvöld lögðu upp með vegna ágreinings um áðurnefndan samning við varnarliðið.