Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna

Fimmtudaginn 11. maí 2000, kl. 12:45:19 (7519)

2000-05-11 12:45:19# 125. lþ. 116.1 fundur 405. mál: #A varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna# frv. 82/2000, Frsm. 2. minni hluta SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 125. lþ.

[12:45]

Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Kannski yrði bilið á endanum ekki svo óskaplega mikið á milli okkar hæstv. utanrrh. í skoðunum ef við töluðum oftar saman um þessi mál. Það er auðvitað alveg ljóst að þetta hefur líka gildi gagnvart svokölluðum öryggishagsmunum annarra ríkja en Íslands og Bandaríkjanna, þ.e. Evrópu, Kanada og annarra Atlantshafsbandalagsríkja. En í því sambandi er það fyrst og fremst aðstaðan, herra forseti, sem skiptir máli eins og málum er nú þegar háttað.

Ekki er langt síðan hér voru 16 orrustuþotur af fullkomnustu gerð. Þær eru núna fjórar og eru meira að segja ekki alltaf hér í landinu. Hér var miklu meiri viðbúnaður, upp undir eða yfir helmingi fleiri hermenn en nú eru o.s.frv.

Staðreyndin er sú að hér er orðinn svo lítill eiginlegur viðbúnaður í formi mannafla og tækja að hann er nánast hverfandi og skiptir engu máli. Ég viðurkenni hins vegar að menn meta aðstöðuna. Menn horfa á flugvöllinn, flugskýli og aðra aðstöðu, eldsneytisbirgðir og slíka hluti sem skipta máli. Þess vegna tel ég að raunsætt mat á stöðunni feli í sér að þegar til viðræðnanna kemur væri það fyrst og fremst spurning um þá aðstöðu sem vegur þungt en ekki hitt hvort hér er mér liggur við að segja að nafninu til fáein hundruð hermanna og tvær eða fjórar þotur. Þess vegna munar það svo litlu að það er ekki að mínu mati nokkuð sem við eigum að láta halda aftur af okkur í því að láta þann draum rætast að Ísland geti meðal þjóðanna borið höfuðið hátt sem herlaust land eins og flestar þjóðir og þar á meðal allar nágrannaþjóðir okkar vilja vera. Hin Norðurlöndin hafa ekki tekið það í mál að þar sætu erlendir herir frá stríðslokum, t.d. Noregur og Danmörk, þó að þau séu í NATO, svo dæmi sé tekið.