Mat á umhverfisáhrifum

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 16:47:10 (7604)

2000-05-12 16:47:10# 125. lþ. 117.12 fundur 386. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (heildarlög) frv. 106/2000, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[16:47]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil vekja athygli hv. þm. Kristjáns Pálssonar á því að þrátt fyrir hið ágæta svar sem hann fékk við fsp. sinni hjá hæstv. umhvrh. í þinginu í gær þá blasir eigi að síður við eftirfarandi staðreynd: Um þessar mundir er verið að vinna að frummatsskýrslu vegna 6. áfanga Kvíslaveitna. Hvað þýðir það, herra forseti? Það þýðir að einhvers staðar innan stjórnsýslunnar eru ráðandi aðilar sem eru reiðubúnir til að leggja út í talsvert mikinn kostnað til að undirbúa virkjun af þessu tagi.

Ég vek athygli á þessu, herra forseti, vegna þess að ég tengi þetta við það undanþáguákvæði sem enn þá er inni í frv. Ég spyr því: Er hv. þm. Kristján Pálsson reiðubúinn til að lýsa því yfir að hann sé algjörlega andvígur því að ráðist verði í þá framkvæmd? Og í öðru lagi: Er hann reiðubúinn til að lýsa því yfir að hann telji að það sé skilningur hans að ekki sé hægt að fara í þá framkvæmd nema hún fari eftir þeim lögum sem við erum að samþykkja núna, í alvörumat á umhverfisáhrifum?

Í annan stað, herra forseti, vil ég líka rifja það upp að ég spurði hv. þm. m.a. ásamt hv. þm. Ólafi Erni Haraldssyni hvaða ástæður væru fyrir því að menn vilja enn þá hafa inni tveggja og hálfs árs tímabil þar sem framkvæmdarvaldið getur nýtt þau framkvæmdaleyfi sem nú eru í gildi. Hvers vegna? Er einhver praktískur tilgangur þar að baki? Ef svo er ekki, hvers vegna getum við þá ekki tekið það út? Ef einhver praktískur tilgangur er þar að baki, hver er hann? Ætla menn virkilega að fara í einhverjar stórvirkjanir sem enn hafa framkvæmdaleyfi án þess að þær sæti mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum sem verða staðfest á grundvelli þessa frv.?

Síðan vek ég líka athygli á því að ég spurði hv. þm. út í hvað 5. mgr. 5. gr. III. kafla á að þýða af hálfu meiri hlutans.