Samkeppnislög

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 23:01:41 (7670)

2000-05-12 23:01:41# 125. lþ. 117.13 fundur 488. mál: #A samkeppnislög# (samstarf fyrirtækja, markaðsráðandi staða, samruni o.fl.) frv. 107/2000, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[23:01]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. fyrir jákvæða umsögn um frv. og tel að það hljóti að hafa munað ákaflega litlu að hv. þm. hefði getað verið með á nál. meiri hlutans en svo varð ekki og þýðir ekki að fást um það. En snúum okkur að þeim brtt. sem hv. þm. gerði að umtalsefni og bar fram spurningar.

Fyrst í sambandi við veltu móður- og dótturfyrirtækja. Það felst í ákvæðinu að sömu reglur gilda um útreikning á hærri mörkunum og þeim neðri, þ.e. að í báðum tilvikum verður að taka tillit til veltu tengdra fyrirtækja. Ef sama regla ætti ekki við væri auðvelt fyrir aðila að fara í kringum samrunareglurnar.

Síðari spurningin varðaði markaðsráðandi stöðu. Þannig er að samrunar sem uppfylla ekki það skilyrði að tveir aðilar hans hafi ekki hvor um sig 50 millj. kr. veltu falla utan samrunaákvæðisins. Hins vegar er með frv. verið að taka upp evrópskar samkeppnisreglur, m.a. bann við misnotkun á markaðsráðandi stöðu.

Viðurkennt er að markaðsráðandi fyrirtæki getur misnotað stöðu sína með því að taka yfir keppinaut. Því getur vel komið til álita að ef fyrirtæki er markaðsráðandi geti það brotið gegn 11. gr. frv. ef kaup þess á litlum keppinaut þykja raska samkeppni. Því er ekki hægt að segja að markaðsráðandi fyrirtæki hafi frítt spil að þessu leyti.