Skipun nefndar til að endurskoða lög um stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 13:54:38 (184)

1999-10-07 13:54:38# 125. lþ. 5.94 fundur 39#B skipun nefndar til að endurskoða lög um stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[13:54]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það eru nú ekki efni til að ræða hér alla sjávarútvegsstefnuna enda tilefni umræðunnar nefndarskipan á því sviði. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að mér þykir miður að þessi umræða skuli yfir höfuð þurfa að fara fram, allra hluta vegna, en það er því miður tilefni til. Ég tel að þetta varpi löngum skugga á það sáttatal sem uppi var í kosningunum sl. vor um það hvernig hrint er úr vör hvað þetta starf snertir. Það var ljóst og hefur legið í loftinu alveg síðan í vor að skipan þessarar nefndar yrði tekin sem ákveðinn mælikvarði á það hvaða innstæður væru fyrir þessu tali, hvaða raunverulegur vilji væri til staðar til að leiða saman að einu borði öll helstu sjónarmið í þessum efnum. Sú niðurstaða að útiloka einn þingflokk, því það gerist auðvitað sjálfkrafa í gegnum ákvörðun um að fulltrúar stjórnarandstöðu séu aðeins tveir, þrisvar sinnum einn eru þrír en ekki tveir, hæstv. sjútvrh., er mjög óskynsamleg. Hún er óskynsamleg vegna þess að hún grefur frá byrjun undan tiltrú á þessu starfi en hún er líka mjög óheppileg vegna þess að hún gengur gegn því grundvallarsjónarmiði að í slíku starfi eigi öll viðhorf að fá að koma fram. Mér finnst, herra forseti, æ oftar gæta þess misskilnings hér að allir hlutir þurfi að vera hlutfallslega vegnir. Það á ekki við hér. Ekki er um að ræða ákvarðanatökuvettvang þar sem menn berast atkvæðum og þetta er ekki samninganefnd eins og hæstv. ráðherra hefur sjálfur orðað það. Þetta er vinnunefnd þar sem ólík sjónarmið eiga og þurfa að fá að koma fram. Þar á hlutfallsleg skipting og hlutföll ekki heima. Eða þarf heilan haug af mönnum til að koma fram sjónarmiðum Sjálfstfl.? Dugar ekki einn ef það er sæmilegur maður? Það snýst um þetta, að fulltrúar helstu sjónarmiða séu til staðar þar sem vinnan fer fram. Það gerist annars staðar að menn ganga til atkvæða, sem sagt hér í þessum sal og þar eru hlutföllin til staðar. En í nefndum af þessu tagi er það mikill misskilningur, herra forseti, að sitja fastir í þessum endalausa hlutfallaútreikningi. Það er til marks um að menn hafi ekki skilið hugtakið fulltrúalýðræði.