Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 18:28:08 (281)

1999-10-07 18:28:08# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[18:28]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég heyri að vinstri grænir hafa hugsað sér að berjast gegn þeim virkjunum sem hafa verið til umræðu á Austfjörðum, einnig Kárahnjúkum, þannig að þeir líkja því við að skrúfa fyrir Dettifoss að virkja Kárahnjúka.

Mér finnst slæmt að heyra þetta og ég get ekki séð annað en að þessi þráhyggja, sem ég vil kalla svo, verði nánast til þess að ekki er hægt að ná sátt um nokkurn skapaðan hlut. Að stjórnvöld haldi sig þá væntanlega bara alfarið við það að virkja í Fljótsdal vegna þess að engin önnur sátt er í stöðunni. Það er ekkert annað sem menn geta í rauninni talað um. Fara með Jökulsá í Fljótsdal í umhverfismat, reyna svo að koma í veg fyrir að hægt sé að virkja einhvers staðar annars staðar. Þannig sjá menn fyrir sér að engin leið er til að gera neitt á Austfjörðum.

Mér finnst þetta engin stefna, ekki ef menn eru að hugsa um sátt í leiðinni. Það er engin sátt í þessu. Þetta er einstefna. Mér finnst þetta í rauninni engin framkoma.