Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 18:36:16 (285)

1999-10-07 18:36:16# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[18:36]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Því miður tókst mér ekki að ljúka upplestri á ályktun sveitarstjórnarmanna á Austurlandi en ég held að ágætt væri fyrir þingmenn að heyra viðhorf kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum á Austurlandi til þessa máls, og mun því, með leyfi forseta, lesa þá ályktun upp. Hún ber fyrirsögnina Virkjanir og stóriðja á Austurlandi --- byggðamál:

,,Aðalfundur SSA, haldinn í Brúarásskóla á Norður-Héraði dagana 26. og 27. ágúst 1999 ítrekar þá stefnu sambandsins að styðja eindregið áform um virkjanaframkvæmdir á Austurlandi og nýtingu orkunnar í fjórðungnum. Leggur fundurinn áherslu á eftirfarandi í þessu sambandi:

Lög í landinu heimila að ráðist verði í byggingu Fljótsdalsvirkjunar. Ekkert virkjunarsvæði hefur verið eins ítarlega rannsakað og virkjunarsvæði Fljótsdalsvirkjunar, enda mikilvægt að mat á umhverfisáhrifum slíks mannvirkis sé vandlega unnið. Brýnt er að félagsleg áhrif og umhverfisáhrif virkjunar og iðjuvers á Austurlandi verði vandlega kynnt, sérstaklega verði vandað til kynningar á þeirri skýrslu á umhverfisáhrifum virkjunar sem væntanlega verður lögð fram á næstunni.

Mikilvægt er að framkvæmdir við virkjun og orkufrekan iðnað hefjist hið fyrsta, enda hafa áform um slíkt verið uppi á Austurlandi í um 20 ár. Úttektir sýna að tilkoma orkufreks iðjuvers mun hafa mjög jákvæð áhrif á íbúa- og efnahagsþróun á Austurlandi. Virkjun og orkufrekur iðnaður á Austurlandi mun án ef vera áhrifamesta byggðaaðgerð sem stjórnvöld eiga kost á að stuðla að um þessar mundir.``

Þetta var ályktun sveitarstjórnarmanna á Austurlandi og ég held að hún eigi vel heima í þessari umræðu.

Hæstv. forseti. Hér var vitnað til lífsviðhorfa. Það er lífsviðhorf mitt að vilja búa á Austurlandi og ég tel það vera okkur Austfirðingum nauðsynlegt að nýta þær orkulindir sem við höfum og eigum á Austurlandi. Þess vegna er afar nauðsynlegt að nú þegar verði haldið áfram með þær virkjanaframkvæmdir sem þegar er hafist handa við. Eins og kemur fram í ályktun sveitarstjórnarmanna á Austurlandi er þetta kostur sem þeir styðja alveg eindregið.