Endurskoðun laga um almannatryggingar, skatta og lífeyrissjóði

Miðvikudaginn 13. október 1999, kl. 13:39:56 (454)

1999-10-13 13:39:56# 125. lþ. 8.1 fundur 27. mál: #A endurskoðun laga um almannatryggingar, skatta og lífeyrissjóði# fsp. (til munnl.) frá forsrh., SighB
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 125. lþ.

[13:39]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir með þeim sem hér hafa talað um að hér sé hið þarfasta mál á ferðinni. Það er m.a. mikið áhugamál þess sem hér stendur, hæstv. forsrh. mun kannast við að gerðar voru tilraunir til þess að fá í gang svona athuganir. Það gekk ekki upp þá og því er fagnaðarefni að það skuli gert nú.

Ég ítreka spurningu hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur sem spurði áðan um hvort hugsanlegt væri að stjórnarandstaðan komi með einhverjum hætti að þessu máli. Hér er um þverpólitískt mál að ræða, mál sem allir flokkar hafa lýst jákvæðri afstöðu til. En við þá spurningu vil ég bæta og spyrja hæstv. forsrh. hvort hann sé ekki reiðubúinn til þess, þegar fyrri hluta þessarar athugunar lýkur og embættismennirnir hafa lokið skoðun og lýsingu á kerfinu, að gera Alþingi grein fyrir þeim niðurstöðum, annaðhvort með því að greina frá þeim sjálfur á Alþingi og útbýta þá niðurstöðum nefndarinnar eða með því að flytja Alþingi skýrslu um þessa athugun.