Samstarf atvinnulífs og skóla á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 13. október 1999, kl. 13:48:14 (458)

1999-10-13 13:48:14# 125. lþ. 8.3 fundur 42. mál: #A samstarf atvinnulífs og skóla á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 125. lþ.

[13:48]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Spurt er:

,,Hvert verður hlutverk menntamálaráðuneytisins í að koma á samstarfi atvinnulífs og skóla á landsbyggðinni um endur- og símenntun, sbr. 9. lið þingsályktunar um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1999--2001?``

Með ákvæðum í 34. og 35. gr. laga um framhaldsskóla er skapaður grundvöllur fyrir framhaldsskóla til að starfrækja endurmenntunarnámskeið eða annars konar nám í samráði við ýmsa aðila. Sumir skólar hafa eingöngu nýtt sér heimild í 34. gr. en flestir framhaldsskólar á landsbyggðinni hafa gengið til samstarfs við fjölmarga aðila í heimahéraði um stofnun símenntunarmiðstöðvar á grundvelli ákvæða í 35. gr. laganna. Þannig hafa þegar verið stofnaðar slíkar miðstöðvar á Suðurnesjum með þátttöku Fjölbrautaskóla Suðurnesja, á Vesturlandi með þátttöku Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi, svo og Samvinnuháskólans á Bifröst og Búnaðarháskólans á Hvanneyri, á Vestfjörðum með þátttöku Framhaldsskóla Vestfjarða, á Norðurlandi eystra með þátttöku Framhaldsskólans á Húsavík og Framhaldsskólans á Laugum, á Austurlandi með þátttöku Menntaskólans á Egilsstöðum, Verkmenntaskóla Austurlands og Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu, og á Suðurlandi með þátttöku Fjölbrautaskóla Suðurlands. Á Norðurlandi vestra hefur Fjölbrautaskólinn á Norðurlandi vestra gengið til samstarfs við ýmsa aðila um fjarkennslu á svæðinu. Þessar miðstöðvar eru sjálfseignarstofnanir og starfa samkvæmt skipulagsskrá sem dómsmrn. staðfestir. Menntmrn. hefur fengið drög að skipulagsskrám til athugunar og veitt leiðsögn um útfærslu þeirra.

Þá hefur ráðuneytið gert samninga við miðstöðvarnar um fjárveitingar á grundvelli ákvæða í fjárlögum 1991. Með fyrrgreindum ákvæðum í framhaldsskólalögunum hefur ráðuneytið stuðlað að því að framhaldsskólar hafi lagalegan grundvöll til að stofna til samstarfs við ýmsa aðila í heimahéraði, m.a. aðila atvinnulífsins um endur- og símenntun. Í þeim tilvikum þar sem sérstök miðstöð hefur verið stofnuð eru aðilar frá atvinnulífinu meðal stofnaðila og eiga oftast líka fulltrúa í stjórn. Tilgangurinn með miðstöðvunum er ekki hvað síst sá að skapa vettvang fyrir skóla og atvinnulíf til að vinna saman að því að efla möguleika íbúa á viðkomandi svæði til að afla sér endurmenntunar og stunda símenntun.

Í frv. til fjárlaga fyrir árið 2000 er gert ráð fyrir að áframhald verði á framlagi til starfsemi miðstöðvanna og mun ráðuneytið þegar fjárlög ársins 2000 hafa verið samþykkt gera samninga við miðstöðvarnar um fjárstyrk. Ráðuneytið hefur þegar skapað vettvang fyrir þetta samstarf atvinnulífs og skóla og reiknar með að fé fáist áfram í fjárlögum til að veita miðstöðvunum rekstrarframlag. Miðstöðvarnar starfa sem nokkurs konar umboðsaðilar fyrir margs konar námsframboð en þær geta einnig skipulagt námskeið. Þá hafa miðstöðvarnar lagt áherslu á að koma upp tæknibúnaði til að hægt sé að efla fjarkennslu. Ráðuneytið hefur veitt heimild til þess í fyrrgreindum samningum að hluta fjárveitingar verði varið til slíks.

Hlutverk ráðuneytisins verður fyrst og fremst að gera samninga við miðstöðvarnar um rekstrarframlag á grundvelli fjárlaga, taka þátt í samstarfi miðstöðvanna um fagleg málefni og hvetja til samvinnu og verkaskiptingar eftir því sem þörf krefur.

Í 2. lið fyrirspurnarinnar er spurt:

,,Hvaða skólar gætu átt hlut að slíku samstarfi og hvernig yrði þátttöku þeirra háttað?``

Eins og fyrr segir taka þegar nær allir framhaldsskólar á landsbyggðinni þátt í starfi símenntunarmiðstöðva. Háskólinn á Akureyri og Háskóli Íslands og háskólastofnanir á Vesturlandi eru einnig í samstarfi við miðstöðvarnar. Skólarnir bjóða upp á nám samkvæmt námskrá en einnig geta þeir lagt til kennslukrafta gegn greiðslu á kostnaði, samanber ákvæði 34. gr. laga um framhaldsskóla.

Af því að hv. fyrirspyrjandi nefndi einnig í ræðu sinni tölur úr fjárlagafrv. og taldi að þar væri um lækkun að ræða, þá er rétt að benda hv. þm. á að líta verður á tvo liði í þessu samhengi, annars vegar þann lið sem hv. þm. vísaði til og hins vegar liðinn um fjarkennslu þar sem ætlað er fé til þessara hluta. Því er ekki gert ráð fyrir því samkvæmt fjárlagafrv. að fjárveitingar til þessara verkefna skerðist.