Ný viðhorf um aðild Íslands að Evrópusambandinu

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 15:30:46 (584)

1999-10-14 15:30:46# 125. lþ. 10.93 fundur 73#B ný viðhorf um aðild Íslands að Evrópusambandinu# (umræður utan dagskrár), Flm. SighB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 125. lþ.

[15:30]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Í kvöldfréttum í gær var skýrt frá tillögu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um að hefja á næsta ári aðildarviðræður við sex ný ríki, þar á meðal þau tvö Eystrasaltsríki sem óskað hafa eftir viðræðum en viðræður hafa ekki hafist við. Í kvöldfréttatíma Stöðvar 2 í gærkvöldi var af því tilefni birt viðtal við hæst. utanrrh. Halldór Ásgrímsson. Í inngangi fréttarinnar segir að þessi óvænta tillaga framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins hafi galopnað umræðuna um aðild Íslendinga að sambandinu og að utanrrh. telji hana stórtíðindi. Enn fremur var haft eftir ráðherranum að þetta breytti mjög miklu fyrir Íslendinga og að löndin á Evrópska efnahagssvæðinu verði nú að endurskoða stöðu sína. Hæstv. utanrrh. sagði orðrétt, með leyfi virðulegs forseta: ,,Að sjálfsögðu er það skylda ríkisstjórnarinnar að leggja fram valkosti á næstu mánuðum eða árum um hvernig rétt er að bregðast við þeirri aukningu í samrunaþróun sem þarna virðist vera á ferðinni og er vissulega nokkuð óvænt, hvernig svo sem þeim tekst nú að spila úr því.``

Hér er um að ræða mjög athyglisverð ummæli hæstv. ráðherra sem ganga þvert á þá yfirlýsingu hæstv. forsrh. að málið sé ekki á dagskrá. Sú stefna að hafa málið ekki á dagskrá hefur þegar reynst íslenskum hagsmunum dýrkeypt að mínu mati. Það verður erfiðara að tryggja áhrif Íslendinga í stækkuðu Evrópusambandi en áður. Samfylkingin hefur viljað brjóta þennan þagnarmúr. Við höfum viljað taka þetta mál á dagskrá. Tillaga okkar hefur verið sú að kynna Íslendingum valkosti Evrópusambandsins, þar á meðal kosti þess og galla með það að markmiði að stuðla að upplýstri umræðu meðal þjóðarinnar þannig að hún sé í stakk búin til þess að taka ákvörðun hvort hefja skuli aðildarviðræður eða ekki.

Nú tekur hæstv. utanrrh. í sama streng. Það er ánægjulegt að hann skuli gera það. Með því er hæstv. ráðherra að hjálpa okkur til að taka málið á dagskrá á nýjan leik og hefja umræður um það enda segir hann sjálfur að ríkisstjórninni sé skylt að leggja fram valkosti í málinu fyrir þjóðina til að ræða.

Virðulegi forseti. Það er ekki bara að þessi nýju tíðindi um viðræður við sex ný aðildarríki sem hér skipta sköpum. Fram hefur komið hjá hæstv. utanrrh., og ég er honum sammála í því mati, að stöðugt erfiðara er að framfylgja samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði, sem var barn síns tíma. Samningsþjóðir okkar, þ.e. ESB-þjóðirnar, sinna þeim samningi stöðugt minna og fyrir liggur að ein af þeim þremur þjóðum, fyrir utan Liechtenstein, sem stendur að EFTA-stoðinni í þessu samstarfi, þ.e. Sviss, hefur þegar lagt fram aðildarumsókn. Það er því ljóst að það er bara tímaspursmál hverær EES-stoðin í þessu tvíhliða samstarfi sem myndar hið Evrópska efnahagssvæði hrynur og þá er betra að Íslendingar hafi unnið heimavinnu sína.

Fyrir mig sem er sannfærður um að það sé bara tímaspurning hvenær Ísland verði aðili að Evrópusambandinu þá er það mikið áhyggjuefni að sú stefna hæstv. forsrh. að taka málið ekki einu sinni á dagskrá hefur valdið því að íslenskir hagsmunir standa verr en ástæða er til. Ætla mætti að staðan væri öðruvísi ef hæstv. ríkisstjórn hefði unnið heimavinnu sína og búið þjóðina undir að ræða málið af þekkingu og skynsemi. Það hefur hún ekki gert. Hæstv. utanrrh. opnar hins vegar fyrir að sú umræða geti farið fram og ég vil því spyrja virðulegan ráðherra sem segir að það sé skylda ríkisstjórnarinnar að leggja fram valkosti og ræðir þar um næstu mánuði eða ár í því sambandi: Hvernig hyggst hann standa að kynningu á slíkum valkostum? Hvernig hyggst hann standa að þeirri vinnu sem hann hefur sjálfur sagt að nauðsynlegt sé að setja í gang hið fyrsta?