Ný viðhorf um aðild Íslands að Evrópusambandinu

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 15:53:26 (592)

1999-10-14 15:53:26# 125. lþ. 10.93 fundur 73#B ný viðhorf um aðild Íslands að Evrópusambandinu# (umræður utan dagskrár), MF
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 125. lþ.

[15:53]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég er ein þeirra sem hrukku upp, glaðvaknaði í gærkvöldi og vakti í nótt af einskærri ánægju yfir því að hér skyldi einn af hæstv. ráðherrum ákveða að þetta mál skuli tekið á dagskrá og Íslendingar verði að huga að stöðu sinni í samstarfi Evrópuþjóðanna. Það var löngu kominn tími til. Reyndar er þetta ekki í fyrsta skipti sem hæstv. utanrrh. nefnir þetta. Á landsþingi Framsfl. í nóvember lýsti hann þessari skoðun sinni í ræðu og síðan einnig í blaðaviðtölum.

Það að tekin er ákvörðun um að hefja viðræður við fleiri þjóðir en áður hafði verið áætlað verður sannarlega til þess að löndin á Evrópska efnahagssvæðinu verða að endurskoða afstöðu sína. Við lifum ósköp einfaldlega við þann veruleika að samstarf þjóðanna breytist nánast frá degi til dags. Breytingarnar eru mjög örar. Þrátt fyrir að einhverjir hv. þm. telji sig hafa tekið ákvörðun um hvernig þessu samstarfi skuli eða eigi að vera háttað, fyrir einhverjum árum, þá verða menn sem ætla að vera það ábyrgir í pólitískri afstöðu sinni að átta sig á að við getum ekki og munum aldrei stíga skref aftur inn í fortíðina.

Við verðum að fylgja með. Annars verða ráðin tekin af okkur. Fyrirtækin hafa þegar tekið afstöðu. Ungt fólk hefur tekið afstöðu. Það vill aukið samstarf og það er ábyrgðarlaust að afgreiða þessa umræðu með því hvort menn hafi sofið úr sér eða ekki. Við fögnum því ef málefnaleg umræða á sér stað. Mér þykir það leitt ef sumir hv. þm. hafa sofið svo lengi að þeir gleymdu að hreinsa út úr eyrunum og heyrðu því ekki hvað hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sagði.