Fréttir um geymslu kjarnorkuvopna á Íslandi

Miðvikudaginn 20. október 1999, kl. 15:06:36 (775)

1999-10-20 15:06:36# 125. lþ. 13.96 fundur 88#B fréttir um geymslu kjarnorkuvopna á Íslandi# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 125. lþ.

[15:06]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég held að ekki sé hægt annað en taka þær fréttir sem komu vestan um haf í morgun þess efnis að hér á Íslandi hefðu verið geymd kjarnorkuvopn alvarlega. Þær eru a.m.k. taldar það trúverðugar að helstu stórblöð vestan hafs og sjónvarpsstöðvar hafa haft þetta sem sína fyrstu frétt eða forsíðufrétt.

Reynslan annars staðar frá, samanber Danmörku, gefur líka fullt tilefni til þess að taka svardögum og yfirlýsingum um hið gagnstæða þegar kjarnorkuvopn eiga í hlut með fyrirvara. Eða hversu oft höfðu ekki bæði bandarísk stjórnvöld og danskir ráðamenn þvertekið fyrir það og svarið fyrir að þar í landi hefðu nokkurn tíma verið geymd kjarnorkuvopn? En annað kom á daginn og að lokum neyddust báðir aðilar til að viðurkenna það, annars vegar bandarísk stjórnvöld að hafa í trássi við yfirlýsta stefnu Dana geymt kjarnorkuvopn á Grænlandi og hins vegar danskir forsætisráðherrar að viðurkenna að þeir hefðu logið að þjóð sinni.

Þetta gefur tilefni til þess, herra forseti, að öll samskipti íslenskra stjórnvalda við bandarísk stjórnvöld og hermálayfirvöld verði tekin til skoðunar, bæði vegna þessa tíma sem í hlut á sögunnar vegna til að rannsaka hvað raunverulega gerðist og hvað íslenskir ráðamenn vissu eða máttu vita um þá hluti en einnig vegna tengslanna og skírskotunarinnar til nútímans. Kjarnorkuvopn eru staðreynd. Herstöðin á Miðnesheiði er því miður staðreynd og hún er hluti af þessari vígbúnaðarkeðju.

Kjarnorkuvopnastefnan er óbreytt frá þessum tíma, sem sagt sú að bæði Bandaríkjamenn einhliða og eins NATO sameiginlega áskilja sér rétt til að beita kjarnorkuvopnum að fyrra bragði. Sömuleiðis sú stefna að játa hvorki né neita tilvist kjarnorkuvopna og það er hluti af þeim leyndarhjúp og blekkingavef sem þessi mál eru umvafin.

Ég tel að hér eigi að gera svipað og gert var í Danmörku eða þá í Noregi þegar hlerunarmálin komu upp þar að skipa óháða rannsóknarnefnd, einhvers konar sannleiksnefnd til að fara ofan í saumana á þessum málum og fá fram það sem réttast reynist og koma þeim þar með út úr heiminum.