Fréttir um geymslu kjarnorkuvopna á Íslandi

Miðvikudaginn 20. október 1999, kl. 15:17:59 (780)

1999-10-20 15:17:59# 125. lþ. 13.96 fundur 88#B fréttir um geymslu kjarnorkuvopna á Íslandi# (umræður utan dagskrár), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 125. lþ.

[15:17]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Í ársbyrjun 1958 sendi Bulganin, forseti Sovétríkjanna, bréf til ríkisstjórnar Hermanns Jónassonar og spurði: ,,Hvers vegna hafa Íslendingar ekki mótað stefnu varðandi kjarnorkuvopn og veru þeirra í landi sínu?`` Hermann Jónasson svaraði 1. febrúar 1958 og sagði að aldrei hefði komið til álita að kjarnorkuvopn væru á Íslandi og sú stefna hefði verið mótuð af ríkisstjórninni að þau kæmu ekki nema með samþykki hennar. Þetta var stefnumótun sem ríkisstjórn Hermanns Jónassonar stóð fyrir í ársbyrjun 1958.

Árið 1980 kom William Arkin og hélt því fram að það væru kjarnorkuvopn á Íslandi. Hvers vegna? Vegna þess að landgönguliðar á Keflavíkurflugvelli væru æfðir og hefðu handbók sem segði þeim hvernig þeir ættu að haga sér ef kjarnorkuvopn væru í nágrenni þeirra. Það er álíka mikil speki og þessi sem nú er að nota einhvern lista þar sem Ísland er ekki einu sinni á blaði og draga þá ályktun af honum að þess vegna séu kjarnorkuvopn í landinu. Að halda því fram að þetta mál hafi ekki verið rannsakað er út í bláinn. Það hefur verið rannsakað af öryggismálanefnd, sem var starfandi og var samstarfsnefnd allra flokkanna á sínum tíma, og gefin út skýrsla um málið, um kjarnorkuvopn á Íslandi. Síðan hefur utanrmn. hvað eftir annað komið að málinu, fengið öll gögn um málið og rannsakað málið. Síðan elta alltaf sömu þingmennirnir og sömu mennirnir lausafréttir frá útlöndum og setja þetta leikrit á svið sem við erum að taka þátt í núna og niðurstaðan er alltaf sú sama. Það er spurning hvað það tekur langan tíma til að leiða endanlega til lykta að það séu lausafréttir, hvort sem þær berast úr Washington Post eða einhvers staðar annars staðar. Þegar sömu mennirnir, William Arkin og félagar, standa að baki upplýsingamiðluninni, þá vakir fyrir þeim að hnekkja þeirri stefnu Bandaríkjastjórnar að játa hvorki né neita að kjarnorkuvopn séu í einstöku löndum. Þeim er alveg sama hvort þau séu á Íslandi eða einhvers staðar annars staðar. Þeir eru að berjast við bandarísk stjórnvöld og kjarnorkuumræðurnar í Bandaríkjunum núna eiga rætur að rekja til deilna forsetaembættisins og öldungadeildar Bandaríkjaþings um bann við tilraunum með kjarnorkuvopn en snertir þetta mál ekki neitt heldur þessa baráttu sem á sér stað í Bandaríkjunum. Við erum leiksoppar með þeim hætti sem við sjáum hér í dag.