Afnám verðtryggingar fjárskuldbindinga

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 16:54:15 (895)

1999-10-21 16:54:15# 125. lþ. 15.5 fundur 15. mál: #A afnám verðtryggingar fjárskuldbindinga# frv., Flm. GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[16:54]

Flm. (Gísli S. Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir að taka þátt í þessari umræðu. Það fer ekki á milli mála að þingmaðurinn hefur manna mest vit á þessum fjármálum og áhrifum af verðbindingum. Ég vil þó benda á varðandi vaxtabótalán sem þingmaðurinn nefndi og vaxtabætur, að það er ekki nema hluti landsmanna sem á þess kost að komast inn í það kerfi að taka hagstæð lán hjá Íbúðalánasjóði og jafnvel ávaxta þau, því að ég skildi það sem svo að verið væri að nota kerfið á þann veg að einhverju leyti.

Svo vil ég líka leiðrétta það að verðbólga hefur verið vaxandi. Hún hefur ekki verið að lækka. Hún hefur verið vaxandi. Ég segi bara alveg eins og er að ég vona að við höfum ekki náð það hátt að við séum komin í skrúfuna sem gerir það að verkum að verðtryggingarnar auki verðbólgu. Ég ræddi þetta mál við hæstv. viðskrh. rétt áðan en hann kom ekki mikið inn á verðbólguáhrifin eða verðbólguaðgerðirnar eða verðbólguna eins og hún verður til af þessum bindingum.

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem varð og vona að hv. efh.- og viðskn. taki þetta mál til umfjöllunar því að á hverjum tíma er nauðsynlegt að skoða stöðuna og það er fyrst og fremst tilgangur minn með flutningi þessa frv. Eins og ég sagði áðan þá hefði ég e.t.v. átt að flytja frv. um að skipa nefnd til að skoða málið. En ég treysti efh.- og viðskn. fyllilega til að taka málið til umfjöllunar. Ef það er ástæða til að gera breytingar varðandi þessar verðbindingar, þá mun hún leggja það til.