Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 14:26:55 (942)

1999-11-02 14:26:55# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[14:26]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það liggur alveg ljóst fyrir í þessu máli að allar bandalagsþjóðir Bandaríkjanna eru mjög óánægðar með það sem þarna hefur gerst. Það fer ekkert hjá því að auðvitað verður það rætt á vettvangi Atlantshafsbandalagsins. En það vill líka svo vel til að forseti Bandaríkjanna og utanríkisráðherra Bandaríkjanna eru sömu skoðunar og telja þetta vera mjög alvarlegan atburð í sögu Bandaríkjanna. Ég vænti þess að kosningarnar sem fram undan eru í Bandaríkjunum geti orðið tilefni til þess að Bandaríkjamenn skipti þarna um afstöðu og þau þröngsýnu viðhorf sem hafa komið fram hjá bandaríska þinginu víki í þessu máli. Bandaríkjaforseti hefur lagt á það áherslu að með þessu séu Bandaríkin að einangra sig í alþjóðamálum. Öll Atlantshafsbandalagsríkin eiga því bandamann í ríkisstjórn Bandaríkjanna og forseta í því máli. Ég vænti þess að bandaríska þjóðin komi því til leiðar að þarna verði breytt um stefnu. Hv. þm. þarf því ekki að óttast það að ég komi ekki þeim sjónarmiðum á framfæri þó að að sjálfsögðu hefði mátt endurtaka þau í þeirri ræðu sem hér hefur verið flutt. Ég heyri að við erum sammála í þeim efnum og ég vænti þess að allir hv. þm. á Alþingi séu sammála því að þetta beri að fordæma og að þarna verði að vera breyting á. Meðal annars þurfum við að halda áfram að þrýsta á ríki eins og Indland og Pakistan til að framfylgja þessari sömu stefnu, sem ég vænti að verði gert í væntanlegri heimsókn forseta Íslands til Indlands, þar sem ég reikna með að verða í föruneyti hans.