Aðild að Haagsamningi um vernd barna og ættleiðingu milli landa

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 19:57:53 (1028)

1999-11-02 19:57:53# 125. lþ. 17.6 fundur 112. mál: #A aðild að Haagsamningi um vernd barna og ættleiðingu milli landa# þál. 4/125, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[19:57]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég er þakklátur hæstv. utanrrh. fyrir að leggja fram þessa till. til þál. um að staðfesta aðild okkar að Haagsamningnum.

Eins og hæstv. ráðherra gat um í framsögu sinni liggur fyrir þinginu merkilegt frv. um ættleiðingar sem er forsenda þess að okkur takist að samþykkja þá þáltill. sem hér er. Ég hef á hverju einasta ári frá því árið 1994 komið hingað í þennan ræðustól og spurst fyrir um hvenær ætti að leggja þennan samning fyrir Alþingi. Nú er sem sagt loksins komið að því. Fyrir það er ég þakklátur hæstv. ráðherra og ekki síst það að hann leggur þennan samning fyrir þingið í rauninni áður en ljóst er um afdrif frv. til ættleiðingar, væntanlega í þeirri góðu trú að það hljóti gifturíka afgreiðslu í þinginu. Eins og fram hefur komið í umræðum um það mál bendir nú allt til þess, þó að örlitlar deilur séu þar um mikilvægt mál að vísu. Ég held, herra forseti, að þegar við verðum orðnir fullgildir aðilar að þessum samningi muni það loksins gerast að miklu auðveldara verður fyrir Íslendinga að ættleiða börn af erlendum uppruna. Það liggur til að mynda fyrir að vilji er til þess af hálfu kínverskra stjórnvalda að aðstoða Íslendinga við að ættleiða kínversk börn hingað til lands. Afstaða kínverskra stjórnvalda hefur hins vegar til þessa mótast af því að samningurinn er ekki af okkar hálfu fullgiltur og þar af leiðir að ekki hefur tekist að láta ættleiðingar þaðan ganga í gegn.

Ég hef einnig greint frá því hér, herra forseti, í umræðum um ættleiðingarfrv., að mér er sjálfum kunnugt um að ríki í Suður-Ameríku hafa litið Ísland hornauga þegar kemur að ættleiðingum vegna þess að skort hefur á að við höfum lokið þessu máli fyrir okkar hönd. Nú ætti þeim annmörkum að vera rutt úr vegi þegar hvoru tveggja er lokið, samþykkt ættleiðingarfrv. og þessarar tillögu.

[20:00]

Í þeim samningi sem hérna liggur fyrir eru mörg gagnmerk atriði sem lúta öll að því að auka rétt barna sem eru ættleidd erlendis frá, ættleidd milli landa, bæði á meðan þau eru börn en líka síðar þegar þau hafa náð fullorðinsaldri og fýsir e.t.v. að afla upplýsinga um uppruna sinn. Ég hefði kosið, herra forseti, þegar mál sem búið er að spyrja svona oft um og a.m.k. nokkur eftirvænting er fyrir í hópi þeirra sem það varðar, þá væri hæstv. dómsmrh. í salnum til þess að hægt væri að inna hana eftir því hvernig hæstv. ríkisstjórn ætlar að uppfylla ýmis skilyrði þessa samnings. Ég ætla ekki að spyrja hæstv. ráðherra sem flytur málið út í hin efnislegu atriði vegna þess að framkvæmd samningsins verður á höndum annars ráðherra. Ég bendi hins vegar á það, herra forseti, að í tveimur greinum er talað um að stjórnvald í ríki sem hefur samþykkt samninginn fyrir sitt leyti tekur sér á herðar að veita væntanlegum kjörforeldrum, eins og það er orðað í samningnum, alla nauðsynlega ráðgjöf. Nú veit ég, í sjálfu sér ekki af sárri reynslu, en veit það þó af nokkurri reynslu, minni eigin persónulegu reynslu af ættleiðingum sem kjörfaðir tveggja ættleiddra barna, að á þessu er verulegur misbrestur. Það hefur nánast engin ráðgjöf verið í gangi af hálfu hins opinbera. Ég minnist þess frá því ég var fertugur að fara suður til Kólumbíu til þess að ættleiða fyrri dóttur mína, að þegar ég fór á heilsuverndarstöðina með eiginkonu minni til þess að fá nauðsynlegar sprautur, þá af tilviljun rakst ég á hjúkrunarfræðing sem spurði mig: ,,Vitið þið nokkuð hvernig á að fara með barn? Við svöruðum auðvitað sannleikanum samkvæmt að svo væri ekki. Sú ágæta kona settist niður og hún hripaði niður á tvö blöð upplýsingar um það hvernig ætti að fara með ungbörn sem reyndust okkur ákaflega þarfar. Ég tek þetta dæmi, þó lítið sé, herra forseti, til að reyna að undirstrika hversu verulega þessum málum hefur verið áfátt. Það er að vísu svo að hér á landi er félagsskapur sem heitir Íslensk ættleiðing og gegnir afskaplega þýðingarmiklu hlutverki og nýtur styrkja frá hinu opinbera, m.a. til þess að aðstoða kjörforeldra. En mjög margir hafa ættleitt sín börn beint, án milligöngu félagsskapar af því tagi og liggja margar orsakir fyrir því sem ég ætla ekki að fara út í hér. Það fólk hefur ekki átt kost á neinni slíkri ráðgjöf. Ég tel að þetta sé ákaflega mikilvægt og tala þar af reynslunni.

Um þetta efni er fjallað í tveimur greinum, 5. gr. og 9. gr., og ég hefði viljað spyrja hæstv. dómsmrh. hvernig hún hyggst beita sér fyrir því að þessum skilyrðum verði uppfyllt. En ég get í sjálfu sér reynt að koma þeim fyrirspurnum til hennar með öðrum hætti. Það sem skiptir langmestu máli í þessu frv. er kannski í grófum dráttum tvennt fyrir utan þennan þátt. Það er í fyrsta lagi að þessi samningur veitir börnum sem eru ættleidd á milli landa vernd gegn því að með þau sé misfarið, þ.e. með þau sé til að mynda verslað. Í dag á sér stað ólögleg verslun með börn. Með verslun á ég við að greitt er fé til þess að fólk geti fengið börn. Í vaxandi mæli er því líka beitt, herra forseti, að fátækar konur eru fengnar í krafti þeirrar neyðar sem að þær búa við, til þess að flytja á milli landa og eignast börn þar sem eru síðan ættleidd. Þær gangast undir samninga, skriflega í mörgum tilvikum, fyrir milligöngu ófyrirleitinna lögfræðinga þar sem þær gangast undir það að gefa börn sín frá sér. Í fjölmörgum tilvikum kemur auðvitað upp sú staða að þegar konurnar hafa fætt börnin og hafa þau í fangi sér þá vaknar að sjálfsögðu þessi sterka móðurtilfinning sem gerir það að verkum að þær sjá eftir öllu saman en hafa takmarkaðan rétt og möguleika, komnar í ókunnugt land, til þess að getað haldið barni sínu.

Herra forseti. Þessi samningur girðir fyrir að slíkt sé hægt, gerir það a.m.k. ólöglegt. Sömuleiðis er ákaflega mikilvægt að í þessum samningi er að finna ákvæði sem skuldbindur upprunalandið til þess að aðstoða barnið eða einhvern umboðsmann þess til þess að afla sér upplýsinga um uppruna barnsins og þá fyrst og fremst um kynforeldra barnsins. Í mörgum tilvikum er óskaplega mikilvægt fyrir börn þegar þau eldast, verða fullorðin, og eru að fóta sig í tilverunni að þau viti a.m.k. að þau eigi þennan rétt og að þau í sumum tilvikum geti með einhverjum hætti reynt að grafast fyrir um uppruna sinn.

Þetta tel ég vera afar mikilvægt og veit það af samræðum mínum við fólk sem er í forsvari fyrir félög eins og Íslenska ættleiðingu í öðrum löndum að þetta hefur reynst börnum óskaplega mikilvægt til að skapa sjálfsmynd sína og sætta sig við það sem er stundum mjög erfitt. Því tel ég að þetta sé verulega mikið framfaraspor eins og ég sagði áðan og fagna því að þessi samningur kemur nú loksins hingað.