Verkefni sem unnt er að sinna á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 03. nóvember 1999, kl. 16:12:19 (1107)

1999-11-03 16:12:19# 125. lþ. 18.10 fundur 49. mál: #A verkefni sem unnt er að sinna á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 125. lþ.

[16:12]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hann gaf. En ég vil undirstrika, vegna orða hans, að í þál. segir að það eigi að skilgreina eftir föngum verkefni einstakra ráðuneyta. Þó að hér sé að sínu leyti um samstarfsverkefni að ræða --- vonandi næst um það gott samkomulag þannig að framkvæmt verði farsællega --- þá er samt sem áður líka vísað til einstakra ráðuneyta. Ég vænti þess að fjmrn. láti ekki sinn hlut eftir liggja í að fara yfir skýrslu Iðntæknistofnunar og leita þar verkefna sem sinna má í öðrum húsum en þeim hefur verið sinnt í hingað til. Um það snýst þetta mál.

Varðandi svikabrigslin þá get ég vel skilið að mönnum sárni þegar talað er um hversu erfiðlega hefur gengið að framkvæma þá byggðastefnu sem samþykkt hefur verið. Ég minni á þá stefnu sem var í gildi á síðasta kjörtímabili. Þar fór allt á öfugan veg. Það var skelfileg niðurstaða miðað við þau markmið og fyrirheit sem menn settu sér. Mér finnst þess vegna rétt að við í stjórnarandstöðunni sem ekki erum jafnbláeyg gagnvart ríkisstjórninni og ekki jafntilbúin að trúa því að þar sé allt á réttu róli uppfyllum hér það hlutverk stjórnarandstöðu að halda ríkisstjórnarflokkunum við efnið. Það þarf klárlega og þetta er liður í að halda þeim við efnið, að inna eftir því hvernig mönnum gengur við þau verkefni sem liggja fyrir í þessari áætlun.

Við munum halda því áfram. Ég get lofað ykkur því. Þetta er ekki síðasta fyrirspurnin vegna þess að það var helst á ráðherrum að heyra fyrr í dag að menn reiknuðu ekki með því að verða spurðir oftar. Jú, það verður gert.

Framkvæmd byggðaáætlunarinnar skiptir verulegu máli, ekki bara efnislega heldur líka til þess að íbúar landsbyggðarinnar fái trú á því að stjórnvöld ætli þessu sinni að standa við það sem samþykkt hefur verið.