Fjáraukalög 1999

Fimmtudaginn 04. nóvember 1999, kl. 12:19:05 (1125)

1999-11-04 12:19:05# 125. lþ. 20.6 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 125. lþ.

[12:19]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hefur gengið í smiðju kínverskra kommúnista og iðkar sjálfsgagnrýni. Það fer honum vel.

Ég er sammála hæstv. ráðherra um ýmislegt sem hann sagði. Ég er hins vegar ósammála til að mynda þeim skýringum sem hann gefur á þeim 115 milljónum sem þurfa að fara til Skýrr. Hæstv. ráðherra, sem er yfir þessari stofnun, átti auðvitað að vera búinn að sjá þróunina fyrir vegna þess að hún sprettur ekki upp á þessu ári. Það er nákvæmlega þetta sem ég kalla kæruleysi og agaleysi í ríkisrekstrinum.

Að því er varðar árið 2000 þýðir ekki fyrir hæstv. ráðherra, sem er yfir þessum málaflokki, að koma hingað og segja að vegna þess að hann hafi staðið í einhverju baksi og stappi við embættismenn í ríkisgeiranum hafi honum ekki tekist að ná fyrr niðurstöðu í málinu. Það hefur legið fyrir um alllangt skeið að árið 2000 er á næsta ári. Það er því ekki hægt að koma hingað og bera við einhvers konar afsökunum af þessu tagi, a.m.k. dugir ekki að segja að það hafi verið tímaskortur.

Að öðru leyti, herra forseti, held ég að það jákvætt hafi komið út úr samræðum okkar hæstv. fjmrh. að hann er mér sammála um að nokkuð skortir á að hann hafi sinnt hlutverki sínu sem agari ríkisfjármálanna. Ég held því fram, herra forseti, að í sumum tilvikum, sumum erfiðum tilvikum, þurfi hann að ganga lengra en að aga, hann þarf að tyfta líka.