Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Fimmtudaginn 04. nóvember 1999, kl. 17:13:11 (1192)

1999-11-04 17:13:11# 125. lþ. 20.9 fundur 102. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (varðveisla skipa) frv., EKG
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 125. lþ.

[17:13]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Hér er að mínu mati hreyft ákaflega, brýnu og merkilegu máli og það er hvernig við skulum standa að því að byggja upp alvörusjóminjasöfn og sérstaklega söfn sem tryggja varðveislu gamalla skipa. Það er ekki vansalaust fyrir íslenska þjóð hvernig við höfum staðið að þeim málum á undanförnum árum. Fjölmargir áhugamenn um þessi efni hafa komið að máli við mig og hafa lýst miklum áhyggjum sínum yfir hvernig þessi mál eru að fara. Við gerum okkur grein fyrir því að það er mikil þróun í íslenskum sjávarútvegi og skip eru að breytast og menn eru að endurnýja skipin sín og því fylgir að önnur eru lögð til hliðar. Við vitum að auðvitað er ekki hægt að koma því við að varðveita öll skip sem maður hefði áhuga á en engu að síður er það ekki hægt fyrir þjóð eins okkar, siglinga- og fiskveiðiþjóð, að standa ekki betur að þessu máli en raun ber vitni. Það er því miður þannig að mörg skip sem hefði verið full ástæða til að varðveita hafa farið illa, skip sem kannski endurspegla mikla sögu í okkar samhengi, skip sem hafa t.d. verið smíðuð með sérstöku lagi, skip sem hafa verið smíðuð af mönnum sem gátu sér seinna gott orð, skip sem sem skiptu mjög miklu máli við uppbyggingu og þróun fiskveiðiflota okkar. Það er hægt að nefna í þessu sambandi mjög mörg skip. Ég tek sem dæmi núna að menn eru að glíma við það vestur á Ísafirði að varðveita mjög merkilegt skip, Sædísi, sem hefur að langmestu leyti haldið óbreyttu byggingarlagi frá því að hún var smíðuð fyrr á þessari öld. Hún var ein af ,,Dísunum`` svokölluðu, sem margir þekkja sem þekkja til aðstæðna fyrir vestan, og eiga sér mjög mikinn sess í siglinga- og fiskveiðisögu Vestfjarða og reyndar landsins í heild.

[17:15]

Með öðrum orðum tel ég að við eigum við mikið vandamál að etja í þessum efnum. Það er alveg ljóst mál að það er ekki vegna þess ekki hafi verið fullur vilji bæði af hálfu ýmissa stjórnmálamanna og áhugamanna um þjóðmenningu að vinna betur að þessum málum. Vandinn hefur einfaldlega verið sá að það hefur algjörlega skort til þess fjármagn. En það er ekki nóg að varðveita skip, við þurfum líka að finna þeim einhverja möguleika til að halda úti starfsemi þeirra og reka þessi skip. Auðvitað kostar líka að halda þeim við. Við þekkjum að þessi skip þurfa helst að fá eitthvert hlutverk þannig að við getum nýtt þau. Ég held að það mál verðskuldi sérstaka athygli okkar að við brjótum um það heilann. Ég hef svo sem verið að velta fyrir mér ýmsum hugmyndum í þeim efnum.

Ég skal játa, virðulegi forseti, að ég hef ekki farið nákvæmlega ofan í þá hugsun sem hér liggur til grundvallar. Ég vil á þessu stigi þess vegna ekki taka efnislega afstöðu til þess hvort þetta sé það eina sem til álita kemur. Ég vildi hins vegar láta það koma mjög skýrt fram að ég tel að hér sé verið að hreyfa mjög merkilegu máli og nauðsynlegt fyrir okkur að kryfja þetta mál til mergjar og komast að einhverri niðurstöðu. Við svo búið má ekki lengur standa. Við getum ekki lengur sætt okkur við að þjóðin standi sig ekki betur í að varðveita þessa báta og tryggja að sagan sem þessir bátar varðveita skili sér til komandi kynslóða.

Þess vegna tel ég, virðulegi forseti, að okkur beri að taka málið alvarlega. Við þurfum að fara vel ofan í það. Það getur vel verið að þetta sé leiðin til þess að fjármagna þessar endurbætur eða það að varðveita tiltekin eintök, ef svo má segja, af skipa- og bátagerðum vítt og breitt um landið. Við vitum auðvitað að það getur verið mismikilvægt eftir einstökum landshlutum. Eitt byggingarlag skiptir meira máli en annað á ákveðnum stöðum o.s.frv., eins og við sem höfum alist upp með þessari atvinnugrein þekkjum. Mér finnst kjarni þessa máls sá að við þurfum að finna á þessu lausn. Hér er alla vega bent á eina aðferð í því sambandi og ég held að við eigum að skoða hana vel. Ég fagna því þessu frumkvæði hv. flutningsmanna málsins.