Staðlar fyrir lögreglubifreiðir

Miðvikudaginn 10. nóvember 1999, kl. 13:51:51 (1208)

1999-11-10 13:51:51# 125. lþ. 21.3 fundur 127. mál: #A staðlar fyrir lögreglubifreiðir# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 125. lþ.

[13:51]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það sem fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda, Hjálmars Árnasonar, að lögreglan hefur staðið sig vel miðað við aðstæður, og þetta segir hæstv. dómsmrh. líka. Aðstæður eru þá væntanlega þær fjárveitingar sem lögreglan býr við, með öðrum orðum ríkisstjórn landsins.

Ég tek undir að mikilvægt er að setja upp staðla og að þeir séu traustir, ekki síst vegna þess að það er búið að koma á eins konar viðskiptasambandi á milli embættanna og ríkislögreglustjóraembættisins varðandi bifreiðirnar. Þannig er að ríkislögreglustjóraembættið leigir einstökum embættum bíla og lætur þau síðan borga kílómetragjald. Það er síðan hagur embættisins að keyra sem allra minnst.

Spurningin er þessi, sem mér þætti vænt um að heyra álit hæstv. dómsmrh. á: Er það hagur borgarans að bifreiðum sé lagt í sparnaðarskyni og þær ekki notaðar?