Fjarskipti

Fimmtudaginn 11. nóvember 1999, kl. 12:56:30 (1278)

1999-11-11 12:56:30# 125. lþ. 23.6 fundur 122. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 107/1999, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 125. lþ.

[12:56]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Aðeins fyrst um kærur og slíka hluti. Á ríflega tveimur árum munu það vera á þriðja tug mála frá því að einokunin var afnumin. Mér finnst það býsna mikið, ég verð að segja það alveg eins og er, þegar um er að ræða fyrirtæki sem er í eigu allrar þjóðarinnar að það hafi verið svo svifaseint að taka við sér í nýju umhverfi að þetta skuli vera orðið hátt á þriðja tug mála.

Af því að hæstv. ráðherra sagði að seint yrði hægt að koma í veg fyrir deilur á milli fyrirtækja á samkeppnismarkaði verður það seint hægt á meðan menn stilla málum upp eins og hæstv. ráðherra gerir. Ef menn vilja hins vegar koma í veg fyrir þær deilur eða gera þær eins litlar og hægt er og skapa þar með viðunandi rekstrarumhverfi fyrir öll fyrirtækin reyna menn að haga löggjöfinni þannig að minni hætta sé á deilum, a.m.k. sé ekki verið að bjóða upp á þær með löggjöfinni.

Svo aðeins að lokum hvað varðar líkindin með vegakerfinu og þjóðbrautinni sem ráðherrann var áðan að mæla fyrir frv. um, eða kemur fram í því frv., þá eru líkindin mjög mikil enda hafa menn notað sömu orð yfir hvort tveggja. Menn tala um þjóðbraut í þessu frv., hér er talað um upplýsingahraðbrautina. Menn nota sömu orðin vegna þess að líkindin eru nægjanleg til að við getum borið þetta saman. Það er einmitt þegar við berum þetta saman sem okkur verður ljós fáránleikinn í því að ætla einu fyrirtæki í samkeppnisrekstri að sjá um þjóðbrautina.