Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 17:13:13 (1521)

1999-11-16 17:13:13# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[17:13]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. byrsti sig nokkuð þegar ég leyfði mér að efast um að virkjanir í þágu stóriðju hefðu skilað eins miklu inn í þjóðarbúið og margir vilja ætla. Þetta er reyndar mjög umdeilt og hefur verið í langan tíma. Ekki alls fyrir löngu benti Þorsteinn Siglaugsson á það í grein í Morgunblaðinu að hann teldi tap Landsvirkjunar af stóriðju vera tæplega 26 milljarða á árunum 1966--1997. Nú geri ég mér grein fyrir því að þegar þjóðarbúið er skoðað í heild sinni kemur ávinningur inn á annan hátt, skattar, velta í samfélaginu, atvinna og þar að lútandi. En þetta er ekkert einhlítt. En það sem ég saknaði í máli hæstv. utanrrh. þegar hann vék að áhættudreifingu var að hann ræddi þá fjárhagslega þætti málsins. Ég benti t.d. á að í greinargerðum hagfræðinga sem skoðað hefðu þessi mál, væri t.d. vísað til þess að 13 milljarða kr. tap kynni að hljótast af Fljótsdalsvirkjun og hér er ég að vísa í grein hagfræðings, Sigurðar Jóhannessonar í Frjálsri verslun. Við erum að ráðast í geysilega stóra og dýra framkvæmd. Fyrsti áfangi álversins mun vera upp á rúma 30 milljarða, Fljótsdalsvirkjun ein upp á annað eins. Álverið í heild sinni miklum mun meira, hugsanlega 120 milljarða, og þá tölu sem ég nefndi um Fljótsdalsvirkjun má eflaust margfalda með þremur, fjórum eða fimm, vegna þess að við erum að tala um slíkt umfang. Síðan kemur hæstv. utanrrh. og talar um mikilvægi þess að dreifa áhættunni. Hverjir eiga síðan að bera kostnaðinn? Það væri fróðlegt að fá svör við því.