Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 13:42:45 (1842)

1999-11-18 13:42:45# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[13:42]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Þetta var gott svo langt sem það náði. En það náði ekki mjög langt. Ég var minntur á að ég væri talsmaður samneyslu og velferðarþjónustu. Ég er líka talsmaður skatta og réttlátra skatta. En ég ítreka spurningu mína sem ég bar fram við hv. þm., þ.e. að hann gerði okkur ögn betur grein fyrir á hverju hans skynsemistal væri reist. Hann er að hvetja okkur til að samþykkja þáltill. sem felur í sér útgjöld í fyrsta áfanga upp á 60 milljarða. Hann ætlar að fjármagna þetta innan lands úr íslenskum sjóðum. Á sama tíma ætlar hann að einkavæða út og suður, selja öll stærstu fyrirtæki þjóðarinnar. Hvar ætlar hann að taka þessa peninga og hvað finnst hv. þm. um varnaðarorð Þjóðhagsstofnunar sem er með rauðblikkandi ljós uppi núna í 5% hagvexti? Samkvæmt þeim útreikningum sem hagfræðingar hafa gert vegna þessara áforma spá menn hagvexti upp á 7--8%. Ég óska eftir því að okkur sé gerð grein fyrir því í hverju skynsemi hv. þm. er fólgin.