Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 14:18:04 (1863)

1999-11-18 14:18:04# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[14:18]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það kom fram misskilningur í ræðu hv. þm. Það hefur aldrei verið neitt deilt um það að stóriðja á Austurlandi mundi rísa á Reyðarfirði, það hefur aldrei verið neinn annar staður í umræðunni þar. Þeir staðir sem í voru umræðunni var staður í kjördæmi hv. þm. við Keilisnes og þangað átti að leiða orkuna með línu þvert yfir hálendið, eins og var rakið í gær. Þær ákvarðanir voru uppi á þeim árum.

Það er einnig svolítill misskilningur í því að það hafi verið Framsfl. sem fór með þessi mál þegar kísilmálmverksmiðjan var í umræðunni. Það var hæstv. iðnrh. á þeim tíma, Hjörleifur Guttormsson, sem vann að því máli. En það gekk því miður ekki upp. Ég hef rakið þátt okkar þingmanna Austurlands í þessu máli, við höfum aldrei lofað neinu í þessum efnum og gerum það ekki enn. Þetta eru verkefni sem við erum að vinna að og vinnum að þeim af heilindum og viljum ljúka þeim ef það er mögulegt. En við getum ekki ábyrgst að það muni takast vegna orkusamninga og vegna þess að vel getur verið að það takist að koma í veg fyrir þetta með einhverju allsherjaruppnámi í samfélaginu. Það hefur verið reynt allt sem menn hafa getað til þess, og sú vinna er í fullum gangi enn þá. Menn ganga meira að segja svo langt að segja að undirskriftasafnanir séu þjóðaratkvæði og taka sér í munn alls konar slíkar firrur.