Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 15:56:39 (1903)

1999-11-18 15:56:39# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[15:56]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er reginmisskilningur hjá hv. þm. Margréti Frímannsdóttur að málið sé í uppnámi. Það er málið alls ekki. Málið er í traustum farvegi. En okkur þótti rétt og þykir rétt að taka málið fyrir á Alþingi þannig að þeir sem eru annarrar skoðunar geti haft vettvang til að glíma við okkur á, og það höfum við gert undanfarna þrjá daga. Niðurstaðan úr þessari umræðu liggur fyrir, að þeir sem fara á handahlaupum undan sannfæringu sinni hafa farið verst út úr málinu því að þeir eru engum trúir. Þeir bera kápuna á báðum öxlum eins og liðssveit Samfylkingarinnar gerir í þessu máli þar sem hún veit ekki hvort hún á að vera með eða hvort hún á að vera á móti. Hún segir: Við ætlum að vera stundum með og stundum á móti, kannski með og kannski á móti. Það er niðurstaða umræðunnar, Samfylkingin hefur beðið málefnalegt afhroð í þessu máli. Málið er í traustum höndum stjórnarliðsins, það er traustur meiri hluti fyrir því og það mun ná fram að ganga alveg eins og ætlað er.