Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 15:58:07 (1904)

1999-11-18 15:58:07# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, RG
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[15:58]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Í lok ræðu sinnar fyrir hálfri stundu nefndi hæstv. iðnrh. blaðamannafund iðnn. máli sínu til stuðnings þegar hann var að ræða um það mat sem Alþingi ætti að leggja á þetta mál og við höfum gagnrýnt.

Nú er það svo, virðulegi forseti, að Alþingi hefur verið að þróa starfsemi sína og starfshætti á liðnum árum. Aðstaða þingmanna hefur verið bætt, við höfum tölvuvætt bæði skrifstofur og þing, sjónvarpsvætt skrifstofur, breytt þingsköpum, gert umræðuna snarpari með andsvörum og samið um ræðutíma o.s.frv. sem gerir þessa umræðu góða. Nefndir þingsins hafa fengið þyngra vægi í störfum þess og þar hafa líka verið þróuð faglegri vinnubrögð en nokkru sinni fyrr. Vel menntað starfsfólk nefndasviðs styrkir nefndastörfin sem þingmennirnir vinna og þetta er mikilvægt. Þetta er mjög mikilvægt og hefur gert þingið öflugt.

Við höfum ákveðið að efla nefndirnar. Við höfum rætt um að opna nefndarfundi en reyndar hefur ekki náðst sátt um það enn þá. Hins vegar er núna verið að taka tæknina í auknum mæli í þjónustu nefndasviðs, m.a. vefsíðu. Allar nefndir þingsins munu vera með vefsíðu héðan í frá og það mun gera fólki og félagasamtökum og öðrum þeim sem vilja koma sjónarmiðum á framfæri varðandi þau mál sem þingið er að fjalla um kleift að gera það eftir þessari leið.

[16:00]

Þess vegna átti ég von á því að þessar framfarir á nefndasviði yrðu kynntar af forsn. sem eitt af framfaraskrefum þingsins. En það var ekki þannig. Það er iðnn. sem heldur blaðamannafund og notar þær framfarir sem við erum að taka í þágu nefndanna allra í blekkingavef stjórnarliðanna um að Alþingi sé til þess bært að vera hér með umhverfismat sem fólk fái aðgang að. Þetta gagnrýni ég harðlega. Það er ekki forsn. sem er að kynna þjónustu, það eru ekki formenn allra nefnda sem eru að kynna aðkomu almennings og möguleika á að koma ábendingum til allra nefnda. Nei, en á sama tíma og við erum að ræða þetta stóra mál er tækifærið notað af iðnn. eða réttara sagt meiri hluta hennar til að gefa það til kynna að ekkert þurfi að gera með andmælarétt, kæruleiðir, sérfræðivinnuna og annað sem lög um mat á umhverfisáhrifum gera ráð fyrir. Virðulegi forseti. Þessu vil ég andmæla og ég gagnrýni þetta harðlega.

Hins vegar ætla ég að segja um umræðuna sjálfa, sem senn er lokið, að hún hefur verið góð. Það er ekki nokkur maður sem segir um þá umræðu, sem nú hefur átt sér stað í þrjá daga á Alþingi, að hún hafi verið málþóf. Það er trúlega vegna þess að hér hefur ekki hallast á hvort stjórnarliðarnir eða stjórnarandstæðingarnir hafa talað oftar eða meira. Og þá finnst stjórnarliðunum umræðan svo fagleg og góð og þá er hún ekki kölluð málþóf vegna þess að þá eru allir að tala. Ef það hefði verið svo að stjórnarliðar hefðu bara setið hér en stjórnarandstæðingar hefðu lagt áherslu á hversu stórt mál þetta væri, verið í faglegri umræðu á sama hátt og hér hefur farið fram, þá hefði þetta hugsanlega verið kallað málþóf. Ekki segi ég þetta til að vera með ólund út af því hversu góð umræðan hefur verið heldur til þess að við lærum af þessu þann sannleik að öflug umræða á Alþingi Íslendinga er af hinu góða og varpar ljósi á það mál sem er til umfjöllunar og við eigum ekki að harma hana.

En það er ýmislegt, herra forseti, sem ég ætla að drepa á. Ég ætla ekki að kafa djúpt í þá umræðu sem átt hefur sér stað, það eru ekki efni til þess, en það eru nokkur atriði sem ég vil koma inn á. Það fyrsta er hæstv. forsrh. og ræða hans. Hún var nú reyndar alveg dæmalaus en ég ætla ekki inn í þann dæmalausa þátt forsrh. hvernig hann notaði tíma sinn til að ræða um Samfylkinguna heldur ætla ég að fjalla um það sem skiptir máli og það er að í þessu máli kom hæstv. forsrh. út úr skápnum. Það er nefnilega þannig að hæstv. forsrh. hefur vanið sig á að tjá sig ekki um viðkvæm mál í ríkisstjórninni en viðkvæmu málin í ríkisstjórninni eru mjög oft á forræði Framsfl. Og meðan þau eru viðkvæm og óvíst er hvernig þau muni falla almenningi og hvernig sjónarmið almennings skella á ríkisstjórninni og þar með Framsfl. þar sem viðkvæmu málin eru oftast, þá heldur hæstv. forsrh. sig til hlés. Þá hef ég á tilfinningunni að hæstv. forsrh. sé feginn að enginn muni að hann ber höfuðábyrgð á málinu. Við vitum að ef tækifæri gefst og hann metur þjóð sína þannig þá mun hann koma fram og segja: Svona gera menn ekki.

Satt best að segja átti ég von á því í þessu viðkvæma máli að þegar svo miklar undirskriftir landsmanna höfðu farið fram og viðkvæmni málsins var orðin áberandi gagnvart þjóðinni, þá hefði forsrh. komið fram og sagt: Svona höldum við ekki áfram með þetta mál, það er mjög mikilvægt að fara að þjóðarviljanum og framkvæma umhverfismat og þess vegna mun ég taka málið í mínar hendur og sjá til þess að það fái þá faglegu leið sem lög hafa ætlað því. Og þá hefði Framsfl., það duglega fólk eins og lýst var fjálglega í dag, sem hafði nú náð því fram sem Alþfl. í dugleysi sínu náði ekki fram á síðasta kjörtímabili --- og er ég nú, herra forseti, að vísa í ræður manna hér fyrr í dag --- staðið eftir einn á vettvangi eins og svo oft hefur gerst. Og hver hefði þá hirt bæði stuðninginn, athyglina og klappið? Það hefði verið hæstv. forsrh.

Þess vegna segi ég að eitt af því sem hefur gerst í þessari umræðu er að hæstv. forsrh. kom út úr skápnum. Hann lýsti yfir að hann væri í forsvari fyrir þetta mál, hann tók á sig þá ábyrgð sem honum ber í málinu og ábyrgðin er hans líka, hæstv. forseti, ef sá dagur rennur upp á næstunni að málið verður verulega erfitt og þjóðin fer að verða mjög aðgangshörð.

Herra forseti. Þetta er það sem mér finnst ekki síst athyglisvert í þeirri umræðu sem hér hefur farið fram sem reyndar ekki allir hafa skilið um hvað snýst. Hún hefur nefnilega ekki snúist um álverið á Reyðarfirði og hún hefur heldur ekki snúist um að virkja eða ekki virkja, hún hefur snúist um að fara að lögum sem Alþingi hefur sett og láta fara fram umhverfismat áður en lokaákvörðun er tekin.

Herra forseti. Einmitt í ljósi þess hve margir hafa komið inn á álversþáttinn og byggðamálin og af því að ég skil Austfirðingana svo vel sem hafa verið dregnir á asnaeyrunum í áratug eða áratugi, ég skil þeirra sterku vonir um breytingar í heimabyggðum, þá geri ég mér grein fyrir að hvaða stórframkvæmd sem er, ekki síst á framkvæmdatíma, hefur áhrif á byggðarlag eða byggðarlög. Ég geri mér alveg grein fyrir að ekki síst á byggingartíma mun þessi stóra framkvæmd, ef af verður, hafa áhrif heima í héraði.

Mig langaði hins vegar að vita hvernig þetta er með álver úti í heimi í dag þar sem sá aðili sem allt málið snýst um og heitir Norsk Hydro á heima. Ég er svo heppin að ég á afskaplega góðan vin, hann er framsóknarmaður og er búinn að vera í aldarfjórðung í sveitarstjórn í byggðarlagi sem hefur byggt allt sitt á álveri. Þetta byggðarlag heitir Sunndalsøra. Þar var byggt álver, virðulegi forseti, 1954 og stækkað síðar. Um helgina hringdi ég í þennan góða vin minn og sagði: Segðu mér allt um hvernig byggðamál þetta var og hvernig byggðamál þetta er í dag. Og í örstuttu máli ætla ég að skila því til hv. Alþingis.

Fyrir 10--15 árum þótti slíku byggðarlagi framtíðin tryggð ef menn fengju vinnu í álverinu. Álverið hélt ungu fólki heima um hríð. Í dag heldur það ungu fólki heima að hluta til en allir sem mennta sig í öðrum störfum en málmiðnaði mennta sig til starfa annars staðar. Álverið hefur ekki sama aðdráttarafl fyrir þessa kynslóð og þá á undan, en fyrir þá kynslóð hafði álverið gífurlega þýðingu. 4.000 manns bjuggu í byggðarlaginu þegar álverið kom og íbúatalan fór í 8.000, hún tvöfaldaðist. Íbúaþróun hefur síðan sveiflast með álverinu.

Nú kaupir álverið þjónustu utan að frá ýmsum stöðum, jafnvel langt í burtu eins og unnt er í dag. Stöðugildin hafa farið úr 1.300 niður í 800 og búið er að segja frá því að þeim muni fækka á næstu árum. 30% íbúanna vinna hins vegar enn þá í álverinu. Nútímavæðingin gerir það að verkum að störfum fækkar en það verða áfram störf.

Ég er, herra forseti, ákveðin í að skila þessari umræðu og upplýsingum mjög efnislega. Hún er um ýmislegt jákvæð og neikvæð og sumir mundu líta á þetta sem meðmæli, aðrir ekki.

Því hefur verið lofað af Norsk Hydro að nútímavæða eða byggja nýtt álver í tíu ár en umræðan er að hvarfla frá Noregi til Íslands. Það vinna ekki margar konur í álverinu. Sveitarfélagið er háð álverinu og telst einhæft sveitarfélag. Búist er við að eftir 10--15 ár sæki ungt fólk annað til vinnu. Í dag er breyting frá fyrri ára pólitík í Noregi varðandi stóriðju og álver. Þá var álverunum stýrt til sveitarfélaganna til atvinnuuppbyggingar, eins og nú á að gera hjá okkur. Í dag sækir fyrirtækið þangað sem ódýrt vinnuafl er og ódýr orka. Í dag er álver ekki notað til atvinnuuppbyggingar. --- Ég er að lýsa upplýsingum frá afskaplega góðum og öflugum framsóknarmanni í Noregi. --- Það er mikill munur frá atvinnusjónarmiðum og byggðasjónarmiðum sjötta áratugarins. Hydro hefur keypt meirihlutastöðuna sem ríkið átti áður og ríkið á bara minni hluta í álverinu. Síðan þá ráða afkomusjónarmið hjá fyrirtækinu. Það er alveg ljóst að þangað sem Hydro kemur, þegar það kemur á einhvern stað, þá kemur það eingöngu út frá viðskiptasjónarmiðum.

Og að lokum þetta, herra forseti. Í Noregi eru umhverfisrannsóknir og mat forsenda allra framkvæmda frá 1993 og mikil umræða hefur verið um vatnsaflsvirkjanir frá árunum milli 1982 og 1991 en eftir það fóru sjónarmið að breytast.

Mér fannst merkilegt að segja frá þessu vegna þess að þarna fékk ég upplýsingar frá einstaklingi sem gerir sér grein fyrir gífurlegri þýðingu slíkra framkvæmda fyrir sitt byggðarlag og hvaða þýðingu þær hafa. Ég segi frá þessum upplýsingum til að menn geri sér grein fyrir að það sem við erum að tala um hér er ekki umræða um svart og hvítt. Það hefur verið reynt að leiða umræðuna eins og hún sé svart/hvít en hún er það ekki.

Herra forseti. Ég gerði mjög vel grein fyrir því í upphafsræðu minni hversu margir þættir framkvæmdarinnar væru umhverfismatsskyldir. Það er álverið, það er höfnin, það er raflínan og það er virkjun í Bjarnarflagi, og hvað það væri sterkt að ríkisstjórnin héldi sig við það að setja virkjunina sjálfa í umhverfismat. Hér hafa margir, ekki síst frá Samfylkingunni, flutt mjög góðar ræður og skýrt mjög vel vegna hvers Samfylkingin hefur sett fram sínar tillögur, annars vegar brtt. við ályktunargreinina, að stuðningur sé við byggingu virkjunarinnar, og um það snýst málið hér, að undangengnu umhverfismati og hins vegar að allar framkvæmdir eigi að fara í umhverfismat sem ekki hafa fallið undir það hingað til. Þetta er skýr stefna og afdráttarlaus. Herra forseti, ég hef kosið að hafa seinni ræðu mína í sama anda og þá fyrri, eins faglega og mér er unnt miðað við þau gögn sem mér hafa verið færð en er jafnsannfærð um að stjórnarflokkarnir eru að gera mjög afdrifaríka hluti með því að færa málið inn á þann hátt sem þeir hafa gert.