Jarðalög

Fimmtudaginn 02. desember 1999, kl. 12:20:39 (2164)

1999-12-02 12:20:39# 125. lþ. 34.3 fundur 227. mál: #A jarðalög# (lögræðisaldur) frv. 119/1999, PHB
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 125. lþ.

[12:20]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Sighvati Björgvinssyni að breytingarnar á þessum lögum eru óverulegar. Frv. sem við ræðum hér fjallar eingöngu um aldursmörk barna eigenda jarða sem á að breyta í óðalsjörð. Um það er svo sem lítið að segja, það er rökrétt afleiðing af breytingum á sjálfræðisaldri.

En lögin sem breytingin er gerð á eru með ólíkindum. Það er ótrúlegt að bændur landsins skuli á sínum tíma hafa sætt sig við ákvæði laganna. Við getum t.d. lesið 6. gr. laganna. Þar segir að við aðilaskipti að réttindum yfir fasteign eða stofnun slíkra réttinda, svo sem fyrir kaup, gjöf, skipti o.s.frv., sé jafnan skylt að tilkynna það sveitarstjórn og jarðanefnd, sem er skipuð sveitungum viðkomandi bónda, og afla samþykkis þeirra til ráðstöfunarinnar. Sveitunginn, bóndinn á næsta bæ, á að samþykkja, ætli bóndinn að gefa einhverjum jörðina sína. (Gripið fram í: Meira að segja barninu sínu.) Meira að segja barninu sínu eða einhverjum sem honum er hjartkær og vill taka við jörðinni. Þeir geta hafnað slíkri ráðstöfun.

Þessi lög taka í reynd eignarréttinn af öllum bændum landsins. Það er með ólíkindum að fulltrúar bænda hafi yfirleitt lagt þetta til og samþykkt þessi lög á sínum tíma, sem er reyndar fyrir nokkuð löngu. Ég skora á hæstv. landbrh. að gæta nú hagsmuna bænda í þessu máli og afnema þessi lög.