Fjáröflun til vegagerðar

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 11:35:57 (2225)

1999-12-03 11:35:57# 125. lþ. 35.10 fundur 223. mál: #A fjáröflun til vegagerðar# (afsláttur af þungaskatti) frv. 31/2000, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[11:35]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Langhelst vildi ég leysa þennan vanda samkvæmt hinni stórsnjöllu uppástungu hv. þm. Péturs Blöndals, að stytta vegina með lögum, ef það væri nú hægt. Bara að það væri hægt þá mundi það ekki vefjast fyrir okkur að gera það. Auðvitað væri hægt að gera það sem stundum er kallað Egilsstaðasamþykktir, þ.e. í anda þess að þar komu menn saman fyrr á öldinni og samþykktu að ríkissjóður skyldi vera skuldlaus. Auðvitað er slíkt frómar óskir.

En það er hægt að stytta vegina með öðrum aðferðum en lögum. Það er hægt að stytta þá með framkvæmdum. Hvalfjarðargöngin styttu leiðirnar og það er hægt að stytta leiðir og gera greiðari með því að byggja upp beina og góða vegi. Það er hægt að ná miklum árangri í því. Það var ekki síst það sem ég var að reyna að koma hér inn í þessa umræðu. Menn skulu muna eftir því við hvaða samgönguástand fjölmörg byggðarlög landsins búa enn þá. Menn reyna að stunda þessa flutninga á mörg hundruð kílómetra malarvegum og borga af þeim fullan þungaskatt. Þar hallar þó a.m.k. á menn og það er fjandakornið ekki félagsleg aðstoð að skrölta á þeim eða hvað?

Ég tek ekki undir það og deili ekki þeim sjónarmiðum með hv. þingmanni að það sé þjóðhagslega óskynsamlegt að að styðja t.d. við byggð á Vestfjörðum eða á Norðausturlandi. Það er þvert á móti gríðarlega hagkvæmt þjóðhagslega að hafa þá byggð. Hefur hv. þm. Pétur Blöndal t.d. kynnt sér hvað þessi svæði leggja til gjaldeyrisöflunar þjóðarbúsins, hversu margfalt hærri útflutningstekjurnar eru á hvern íbúa í Norður-Þingeyjarsýslu en hér í Reykjavík, þar sem þeim er að vísu að mestu leyti eytt?