Byggðastofnun

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 16:46:23 (2360)

1999-12-06 16:46:23# 125. lþ. 36.8 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[16:46]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. sagði að það kæmi skýrt fram í þessu frv. að stjórnarmenn stofnunarinnar yrðu undirsátar hæstv. iðnrh. Ég er nú bara ekki sammála þessu, ég er algjörlega ósammála þessu. Ég skil ekki hvar í ósköpunum hv. þm. getur lesið þetta út úr frv. (ArnbS: Undir yfirstjórn iðnrh.) Það stendur hér skýrum stöfum, með leyfi forseta:

,,Iðnaðarráðherra skipar á ársfundi sjö menn í stjórn Byggðastofnunar til eins árs í senn og sjö menn til vara. Iðnaðarráðherra skipar formann og varaformann og ákveður þóknun stjórnar.

Á stjórnarfundum ræður afl atkvæða.``

Þetta er nú það sem segir um stjórnina. Og ég sé ekki hvernig menn lesa út úr þessu að þeir séu einhverjir undirsátar iðnrh.

Ég lít þannig á, og það var skoðun okkar í þeirri nefnd sem samdi frv., að það yrði engin breyting á starfsháttum stjórnarinnar þó að þetta yrði svona, alls ekki.