Ósk um viðræður við fulltrúa Norsk Hydro

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 13:48:58 (2414)

1999-12-07 13:48:58# 125. lþ. 37.91 fundur 192#B ósk um viðræður við fulltrúa Norsk Hydro# (aths. um störf þingsins), KolH
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[13:48]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Það verður að ítreka hér að því var hafnað í umhvn. að kalla fyrir háttsetta embættismenn innan fyrirtækisins Norsk Hydro. Því var hafnað á laugardaginn var og þess vegna er tillagan fram komin í hv. iðnn. núna. Hv. iðnn. hefur þó þessa viku til að vinna sín mál og mér þykir það í hæsta máta óeðlilegt, herra forseti, að iðnn. skuli hafa svo harðlæstan gestalista að ekki skuli hægt að hnika neinu til þegar um er að ræða aðila sem gegna lykilstöðu í þessu máli. Það verður að hafa í huga, virðulegi forseti, að í meðferð þessa þingmáls eru tvenn meginrök.

Önnur rökin eru þau að á okkur hvíli tímapressa sem haldið sé úti af fyrirtækinu Norsk Hydro. Við höfum fengið misvísandi yfirlýsingar frá þessu ágæta fyrirtæki. Það er ein skynsöm og skilvirk leið til að taka af allan vafa, herra forseti, að kalla fyrir nefndir þingsins fulltrúa frá Norsk Hydro. Ég minni á, herra forseti, að ef ekki er tímapressa á Alþingi við afgreiðslu þessa máls þá er hægt að fara að hlutum með gát, taka skynsamlegri ákvarðanir en virðast nú í farvatninu. Við sjáum þá betur fótum okkar forráð. Það skiptir meginmáli að við tökum meðvituð, yfirveguð skref á upplýstan hátt, herra forseti.

Ég minni á að því hefur verið hafnað að nefndirnar fái opinn fund. Það var óskað eftir því bréflega í síðustu viku, vikunni þar áður reyndar líka. Núna á mánudaginn barst bréflegt svar frá yður, hæstv. forseti, um að því hefði endanlega verið hafnað í forsætisnefnd að við fengjum að hafa opinn fund þar sem almenningur fengi skýringar nefndanna á hvernig málið stæði og hver rökin væru í málinu. Það er í hæsta máta ósæmilegt, virðulegi forseti, að hér skuli lýðræðisins ekki gætt.