Söfnun lífsýna

Miðvikudaginn 08. desember 1999, kl. 15:22:58 (2568)

1999-12-08 15:22:58# 125. lþ. 39.13 fundur 191. mál: #A söfnun lífsýna# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 125. lþ.

[15:22]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson beinir til mín tveimur spurningum. Við þeirri fyrri er svarið: Nei, engar slíkar kvartanir hafa borist ráðuneytinu. Leitað var upplýsinga um hvort kvartanir um þetta efni hefðu borist landlækninsembættinu sem fer með kvartanir og kærur varðandi heilbrigðisþjónustu. Svo reyndist ekki vera.

Í öðru lagi spyr hv. þm.:

,,Er sjúklingum gefinn raunhæfur kostur á að taka ekki þátt í rannsóknum, kjósi þeir það, eða er gefið í skyn að með því minnki þeir möguleika sína eða ættingja til bata?``

Sjúklingum er tryggður réttur til að taka ekki þátt í rannsóknum kjósi þeir svo. Í reglugerð um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði segir í 4. gr., með leyfi forseta:

,,Sjúklingur skal fyrir fram samþykkja með formlegum hætti þátttöku í vísindarannsókn. Áður en slíkt samþykki er veitt skal gefa honum ítarlegar upplýsingar um vísindarannsóknina, áhættu sem henni kann að fylgja og hugsanlegan ávinning og í hverju þátttakan er fólgin. Upplýsingarnar skulu gefnar á þann hátt að þátttakandi geti skilið þær. Sjúklingi skal gerð grein fyrir því að hann geti hafnað þátttöku í vísindarannsókn og hann geti hvenær sem er hætt þátttöku eftir að hún er hafin.``

Virðulegi forseti. Ráðuneytinu er ekki kunnugt um nein tilvik þar sem sjúklingum er gefið til kynna að þeir minnki möguleika sína eða ættingja sinna til bata ef þeir taki ekki þátt í rannsóknum. Hið sama gildir um landlæknisembættið er við spurðum sérstaklega um þetta atriði.