1999-12-16 00:38:52# 125. lþ. 46.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, Frsm. meiri hluta JónK
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[24:38]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil þakka þá málefnalegu umræðu um fjárlagafrv. sem hér hefur farið fram við 3. umr. Það eru örfá atriði sem ég vildi koma inn á í lok umræðunnar.

Hv. þm. Kristján L. Möller, 3. þm. Norðurl. v., beindi til mín fyrirspurn um húshitunarkostnað eða niðurgreiðslu á rafhitun eins og það heitir í fjárlagafrv. Hann spurði á hvaða forsendum við í fjárln. hefðum gert tillögu um þá niðurgreiðslu.

Í fjárlagafrv. voru áætlaðar 100 millj. kr. til þessara verkefna. Í meðförum fjárln. var það hækkað upp í 160 millj. kr. Það var í samræmi við tillögu Byggðastofnunar og byggðaáætlun sem samþykkt var hér sl. vor. Ég gerði þessi mál að umfjöllunarefni í ræðu minni við 2. umr. málsins og gat þess að í iðnrn. væri unnið að heildarendurskoðun á þessum málum. Ráðuneytið er nú að láta meta árlega heildarkostnað í jöfnun orkuverðs í samræmi við þáltill. í byggðamálum. Þá er bæði reiknaður kostnaður vegna rafhitunar og þeirra hitaveitna sem eru dýrari en meðaldýrar hitaveitur. Við þá útreikninga er miðað við ársreikninga og sölutölur orkufyrirtækjanna fyrir árið 1998.

Enn fremur gat ég þess að nauðsynlegt væri að fram færi heildarendurskoðun á reglum um niðurgreiðslu á raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis en núverandi reglur voru í öllum aðalatriðum settar á árinu 1986 og þessi endurskoðun þyrfti m.a. að taka til hámarks viðmiðana. Mér er kunnugt um að iðnrn. vinnur að víðtækri endurskoðun á þessu. Eins og ég gat um í upphafi er tekinn með í þá endurskoðun orkukostnaður dýrra hitaveitna og einnig er tekið tillit til annarra aðgerða sem í gangi eru til þess að greiða niður stofnkostnað hitaveitna. Ætlunin er að þessari endurskoðun ljúki eftir þrjá til fjóra mánuði, að henni ljúki á vordögum og þá geti útgreiðsla farið fram. Mér er hins vegar ljóst að ef það á að greiða allan orkukostnað niður, einnig dýrra hitaveitna niður í verð meðaldýrra hitaveitna, þá nægir þessi upphæð ekki. Ég tel því mjög nauðsynlegt að þessi endurskoðun fari fram og þá verði úthlutað á nýjum grunni.

Í fjórða lagi gerði hv. 11. þm. Reykv., Guðrún Ögmundsdóttir, að umfjöllunarefni fjárveitingu til héraðsdómstólanna. Þar er lagt til 3 millj. kr. tímabundið framlag til að koma upp sérútbúinni aðstöðu fyrir skýrslutökur af börnum í kjölfar breytinga á lögum um meðferð opinberra mála sem tóku gildi 1. maí 1999.

[24:45]

Þessa beiðni fluttu fulltrúar dómstólaráðs inn í fjárln. Þeir töldu að hér væri um viðbótaraðstöðu að ræða sem þörf væri fyrir fyrir eldri aldurshópa sem lentu í þeim hremmingum og ógæfu sem hér er um að ræða. En það var skilningur fjárln. að þessi aðstaða, ef henni væri komið upp, ætti ekki að rýra gildi Barnahússins. Ég vil undirstrika það. Vegna ótta hv. þm. um að gildi Barnahússins verði rýrt að þessu leyti þá ég legg til, og byggi það á skilningi nefndarinnar á þessum málum, að dómsmrn. ræði við fulltrúa dómstólaráðs um þessa framkvæmd og í þeim anda að hagsmunir barna verði hafðir í fyrirrúmi í þessu efni og að aðstaðan sem fyrir hendi er henti þeim sem allra best. Það er skilningur fjárln. á þessu máli. Ég vildi undirstrika það varðandi þessa umræðu.

Ég ætla ekki að lengja umræðuna meira. Ég þakka fyrir hana. Hún hefur verið málefnaleg. Hv. þingmenn hafa komið víða við eins og gengur í umræðu um fjárlög. Þau spanna vítt svið, spanna flest svið landsmála og það er mikilvægt hvernig frá þeim er gengið. Þetta er ein mikilvægasta löggjöf sem þingið samþykkir og veigamesta löggjöf sem er samþykkt á þessu haustþingi.