1999-12-16 00:51:33# 125. lþ. 46.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[24:51]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. 13. þm. Reykv. gerði hér alvarlegt mál að umtalsefni. Ég vil vísa til þess að unnið hefur verið að því að styrkja barna- og unglingageðdeildina á Ríkisspítölunum. Hins vegar geri ég mér alveg fulla grein fyrir því að það eitt dugar ekki í þessu efni og fyrir þau tilfelli sem þarna er um að ræða þarf vissulega blönduð úrræði. Ég er tilbúinn til þess að vinna að því að finna lausnir í þessum efnum þó að ekki séu gerðar tillögur um það í fjárlagafrv. nú. Þetta er málaflokkur sem við þurfum ætíð að hafa í endurskoðun og við þurfum reyna að stefna að betri úrræðum. Eins og ég segi, þó að barna- og unglingageðdeildin gegni mikilvægu hlutverki í þessu efni þá er þörf á blönduðum úrræðum varðandi þessi alvarlegu mál.

Ég vil lýsa því yfir hér að ég er tilbúinn til þess að leggja hönd á plóg í þessu efni og vinna með heilbrrn. í því að finna niðurstöðu varðandi þessi mál.