Ættleiðingar

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 18:15:51 (3177)

1999-12-16 18:15:51# 125. lþ. 47.14 fundur 68. mál: #A ættleiðingar# (heildarlög) frv. 130/1999, ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[18:15]

Ásta Möller:

Virðulegi forseti. Hér er mikilvægt frv. þar sem fram hefur farið heildarendurskoðun á núgildandi ættleiðingarlögum. Ég vil jafnframt benda á að fyrir þinginu liggur þáltill. sem bíður afgreiðslu og kemur til síðari umr. hér á eftir þar sem lagt er til að Íslandi verið heimilað að gerast aðili að Haag-sáttmálanum svo hægt sé að standa við skuldbindingar Íslands samkvæmt sáttmálanum. Hann var gerður fyrir u.þ.b. sex árum og fjallar um vernd barna og samvinnu varðandi ættleiðingar milli landa.

Ég tel það vera viðeigandi að Alþingi samþykki fyrir jól ný lög um ættleiðingu sem felur í sér ákvæði sem er grundvöllur staðfestingar á Haag-sáttmálanum og samþykki um leið heimild um að Ísland gerist aðili að sáttmálanum. Ég fagna því að þetta markmið er í sjónmáli og verður þetta kærkomin jólagjöf til fjölmargra Íslendinga sem undirbúa ættleiðingu erlendra barna en staðfesting Haag-sáttmálans hér á landi er forsenda þess að Íslendingar fá leyfi til að ættleiða börn frá mörgum löndum heims.

Í frv. eru mörg nýmæli sem ber að fagna og mörg þeirra skýra réttarstöðu barna enn betur. Ég vil sérstaklega nefna það atriði sem kom fram í ræðu framsögumanns að barn hefur rétt til þess að fá vitneskju um að það sé ættleitt áður en það nær sex ára aldri og jafnframt kemur fram í frv. að kjörforeldrar eigi rétt á ráðgjöf um hvernig eigi að taka á því. Einnig eru þau nýmæli að umsagna ættleiðingarnefnda er leitað áður en ákvörðun um umsóknarleyfi til ættleiðingar eða forsamþykki er tekið. Það er líka ákvæði um að ættleiðingar fari fram gegnum viðurkennd ættleiðingarfélög. Síðan er athyglisverð nýjung, sem ég vil nefna sérstaklega, það er að dómsmrh. getur mælt fyrir um að umsækjendur um að ættleiða erlent barn leggi fram staðfestingu um að þeir hafi sótt námskeið um ættleiðingar barna. Þetta er í samræmi við umræður og vilja sem hefur komið fram á málþingum nú í haust um þetta efni. Í því sambandi vil ég benda á að í nefndinni komu fram þær upplýsingar að rannsókn frá Hollandi benti til þess að um 30% væntanlegra kjörforeldra falla frá umsókn eftir að hafa sótt slík námskeið.

Virðulegi forseti. Hv. allshn. fjallaði ítarlega um rétt samkynhneigðra til að ættleiða börn. Það varð niðurstaðan í því máli að slík breyting yrði skoðuð í tengslum við endurskoðun á lögum um staðfesta samvist en þær upplýsingar fengust frá dómsmrh. að unnið væri að frv. til laga um breytingu á þeim lögum og mun það að öllum líkindum koma til umfjöllunar á vorþingi. Ítarleg skoðun á þessu máli leiddi í ljós að ef hv. Alþingi kæmist að þeirri niðurstöðu að samkynhneigðum verði veitt heimild til að ættleiða börn væri rétta leiðin að gera breytingu á 6. gr. laga um staðfesta samvist, en þau lög sem hér eru til umfjöllunar gætu staðið óbreytt. Það þyrfti sem sagt ekki breytingu á ættleiðingarlögum til að þetta næði fram.