Reynslusveitarfélög

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 23:06:19 (3340)

1999-12-17 23:06:19# 125. lþ. 48.23 fundur 109. mál: #A reynslusveitarfélög# (gildistími o.fl.) frv. 114/1999, Frsm. ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[23:06]

Frsm. félmn. (Arnbjörg Sveinsdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við skulum minnast þess að hér er um reynsluverkefni að ræða og eðli málsins samkvæmt er slíkum verkefnum ætlaður einhver lokaáfangi. Menn eru að leita sér reynslu af því að sveitarstjórnirnar taki að sér ákveðin verkefni sem eru samkvæmt öðrum lögum vistuð hjá ríkisvaldinu og á einhverjum tímapunkti verða menn að meta þá reynslu sem hefur orðið af því að reka slík verkefni hjá sveitarfélögunum og komast að niðurstöðu um hvort ástæða sé til að breyta lögunum þannig að almennt flytjist þau verkefni yfir til sveitarfélaganna. Það var málið með reynsluverkefnin. Menn ætluðu að fá reynslu af því hvort heppilegt væri að sveitarfélögin mundu reka þau.

Ef menn geta ekki á tilteknum tímapunkti komist að þeirri niðurstöðu að þannig skuli það vera, þá spyr ég, til hvers eru menn að gera þetta? Eigum við að hafa mismunandi reynslusveitarfélög þannig að sveitarfélögin í landinu séu ekki öll með eins verkefni? Ég held að það hljóti nú að vera það sem við viljum gera til framtíðar, þ.e. að verkefnin séu með þeim hætti að þau séu annaðhvort hjá ríki eða sveitarfélagi.