Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Mánudaginn 20. desember 1999, kl. 15:17:31 (3545)

1999-12-20 15:17:31# 125. lþ. 50.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 125. lþ.

[15:17]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt, sem fram kemur í máli hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur að margir hafa túlkað lögin á mismunandi hátt. En það sem mestur styr hefur staðið um er hvort þessi framkvæmd eigi að fara í lögformlegt umhverfismat eftir nýjum lögum um umhverfismat eða ekki. Þess vegna vil ég draga það sérstaklega fram að umhvrn., Skipulagsstofnun og iðnrn. eru sammála um að Fljótsdalsvirkjun sé ekki matsskyld framkvæmd samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Því er alveg ljóst að við erum að vinna eftir lögum og ekkert ólöglegt við það að framkvæma hlutina eins og við erum að gera hér.