Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Mánudaginn 20. desember 1999, kl. 16:24:52 (3553)

1999-12-20 16:24:52# 125. lþ. 50.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 125. lþ.

[16:24]

Katrín Fjeldsted (andsvar):

Herra forseti. Þetta er ansi viðamikil spurning og ég kemst ekki yfir að svara þessu öllu en ég vil ítreka að það sem ég sagði rökstuddi ég og vitnaði til sérfróðra aðila í hverjum þætti fyrir sig. Ég er ekki að finna upp þyngdarlögmálið, herra forseti. Ég hef farið mjög ítarlega yfir gögn þessa máls og þetta er niðurstaða mín eftir þá yfirferð.

Að beita nútímalegum vinnubrögðum gildir jafnt um Nesjavelli og Svartsengi eins og um Eyjabakka. Það gildir að nútímaleg vinnubrögð skuli viðhöfð samkvæmt leikreglum sem Alþingi setti sér sjálft 1993 og sæmir ekki að leita eftir smugum og lagakrókum til að komast undan því heldur á hnarreist að horfast í augu við það sem staðreynd og á með gleði að undirgangast slíkt mat á umhverfisáhrifum sem við erum að fara fram á vegna þess að mat á umhverfisáhrifum innifelur þessa þætti sem hv. þm. var að nefna hér, m.a. byggðaþróun. Það kemur fram í mati á umhverfisáhrifum, ef hann kynnir sér lögin.