Athugasemdir um álver á Reyðarfirði í skýrslu norska sendiherrans

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 10:30:51 (3599)

1999-12-21 10:30:51# 125. lþ. 51.91 fundur 248#B athugasemdir um álver á Reyðarfirði í skýrslu norska sendiherrans# (aths. um störf þingsins), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[10:30]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins vegna frétta í Ríkisútvarpinu í morgun. Þar segir af skýrslu norska sendiherrans á Íslandi til stjórnvalda í Noregi þar sem hann fjallar um málefni Fljótsdalsvirkjunar og álvers í Reyðarfirði. Í skýrslunni segir ráðherrann að ráðherra í íslensku ríkisstjórninni, Siv Friðleifsdóttir, hafi sagt að ef Norsk Hydro dragi sig út úr fjárfestingum í álveri gæti það leitt til verulegs álags í samskiptum ríkjanna, Íslands og Noregs.

Ég spyr: Eru stjórnvöld orðin svo illa stödd í þessu máli að samstarfsráðherra Norðurlanda er fenginn til að óska eftir því við norsk stjórnvöld að þau beiti Norsk Hydro þrýsingi í málinu? Eru stjórnvöld að hafa í hótunum við Norðmenn á þennan hátt eins og segir í Dagens Næringsliv, norska dagblaðinu í morgun? Ég spyr enn: Er þetta gert að beiðni eða undirlagi ríkisstjórnarinnar eða forsrh.? Við þessu verða að fást svör áður en umræða um Fljótsdalsvirkjun hefst á fundinum. Þetta er mjög alvarlegt mál.