Athugasemdir um álver á Reyðarfirði í skýrslu norska sendiherrans

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 10:49:41 (3609)

1999-12-21 10:49:41# 125. lþ. 51.91 fundur 248#B athugasemdir um álver á Reyðarfirði í skýrslu norska sendiherrans# (aths. um störf þingsins), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[10:49]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Hv. þm. nefndi til sögunnar alla þá ráðherra sem fá afrit af umræddri skýrslu. Ég fullyrði að þessum ágætu ráðherrum í Noregi mun koma þessi skýrsla mjög á óvart vegna þess að þeir hafa átt samtöl við okkur starfsbræður sína hér, bæði forsætisráðherra, utanríkisráðherra og aðrir slíkir á undanförnum vikum og mánuðum. Það hefur aldrei komið fram af hálfu Íslands það viðhorf sem sendiherrann er þarna að lýsa þannig að sendiherrann er af einhverjum ástæðum að misskilja fullkomlega stöðuna. Við það fáum við ekkert ráðið. Málið liggur algerlega klárt fyrir af okkar hálfu. (RG: ... stjórnarandstaðan núna?) Stjórnarandstaðan hefur sjálfsagt ekki hjálpað til með málflutningi sínum sem hefur verið óábyrgur, fyrst hv. þm. vill kalla það fram. En þetta pantaði hv. þm. hér og svo sannarlega hefur stjórnarandstaðan ekki staðið sig vel í þessum umræðum, þær hafa ekki verið málefnalegar.

En hitt er annað eins og við höfum sagt, þetta mál er algerlega íslenskt mál. Við viljum eingöngu hafa það sem íslenskt mál. Ábyrgðin er á Íslendingum. Ábyrgðin er á íslenskum ráðamönnum. Ábyrgðin er á stjórnarflokkunum báðum, forustumönnum þeirra og ráðherrum öllum. Þannig er málið vaxið og undan þeirri ábyrgð mun enginn hlaupa.