Framkvæmdir tengdar Reykjanesbraut

Þriðjudaginn 16. janúar 2001, kl. 14:34:49 (3621)

2001-01-16 14:34:49# 126. lþ. 58.5 fundur 373. mál: #A framkvæmdir tengdar Reykjanesbraut# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 126. lþ.

[14:34]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Undirbúningur framkvæmda við Reykjanesbraut er á því stigi að þann 22. janúar nk. verða opnuð tilboð í áfangann sem eru mislæg gatnamót á gatnamótum Breiðholtsbrautar, Nýbýlavegar og Reykjanesbrautar en gert er ráð fyrir að ljúka þeirri framkvæmd, sem er upp á tæpan milljarð í kostnaðaráætlun, á þessu ári. Segja má að það sé fyrsti áfanginn í þeirri hrinu.

Í öðru lagi vil ég nefna að tvöföldun frá Fífuhvammsvegi að Arnarnesvegi og mislæg gatnamót er í undirbúningi. Frumdrög verða tilbúin núna í febrúar og fjárveitingar til þess verks eru á árunum 2003--2004 en óskir hafa borist úr Kópavogi um að hraða því enn frekar.

Í þriðja lagi er Reykjanesbraut um Hafnarfjörð. Vinna við umhverfismat er á fullri ferð hvað þann áfanga varðar og verður unnið að því á þessu ári. Fjárveiting er í ár og á árinu 2002 og 2003 upp á tæplega 1.100 millj. kr. Við vonumst til að hægt verði að bjóða það verk út á þessu ári og fjárveitingarnar eru sem sagt fram til 2004.

Í fjórða lagi er það framkvæmdin Hafnarfjörður að Fitjum, þ.e. frá bæjarmörkum Hafnarfjarðar við Straum. Matsáætlun hefur verið kynnt. Skipulagsstofnun þarf að taka afstöðu til hennar núna í janúar. Matsskýrsla verður síðan send og sú vinna verður unnin fullum fetum og að sjálfsögðu verður farið sérstaklega --- það vil ég undirstrika --- að öllum reglum umhverfismatsins. Verkhönnun verður unnin í ár og á næsta ári og útboð þessa stóra verks sem er þá fyrsti áfanginn þarna verður á hinu Evrópska efnahagssvæði á næsta ári, árinu 2002. Við gerum því ráð fyrir að á vegáætlunartímabilinu verði þeim verkáfanga lokið. Hann nær frá Kúagerði að Hafnarfirði.

Þar er hins vegar um það að ræða og ég hef lýst því yfir að ég vil ekki gefa neinar yfirlýsingar um lok þeirrar framkvæmdar, þ.e. tvöföldun Reykjanesbrautar frá Hafnarfirði alla leið að Fitjum fyrr en fyrir liggur hvers konar tilboð berast á næsta ári í þennan fyrsta áfanga. Þegar það liggur fyrir og við endurskoðun á vegáætlun á næsta ári verður tekin ákvörðun um það hversu hratt verður unnt að ljúka verkinu öllu alla leið að Fitjum. Ég tel eðlilegt að það komi til kasta Alþingis, að sjálfsögðu, við endurskoðun á vegáætlun þegar tilboðin liggja fyrir.

En ég vil undirstrika það að við höfum unnið að þessu á þann hátt að verið er að flýta framkvæmdum frá því sem áður var í langtímaáætlun og á það vil ég sérstaklega minna.

Hvað varðar 2. lið fyrirspurnarinnar, hvort rétt væri að grípa til bráðabirgðaaðgerða, þá hefur verið gripið til bráðabirgðaaðgerða eins og þeirra að breikka axlirnar, breytingar og lagfæringar á tilteknum stöðum við gatnamót hafa verið til úrbóta en það er mat Vegagerðarinnar að mjög erfitt sé að koma á vegriðum og skipta Reykjanesbrautinni í tvennt eins og hún er. Hún er ekki nægilega breið til þess og axlirnar eru ekki nægilega vel úr garði gerðar til að hægt sé að gera ráð fyrir því að þær séu partur af akbrautinni. Því miður er ekki fyrir séð um að það sé hægt. Engu að síður er í gangi mjög mikið aukið eftirlit á brautinni af hálfu Vegagerðarinnar í samstarfi við lögregluna. Allt er það gert í því skyni að auka öryggi.

Hvað varðar rafbraut frá höfuðborginni til Keflavíkur þá liggur það fyrir að Orkuveita Reykjavíkur er að láta vinna að skoðun á því í samstarfi við Vegagerðina. Gert er ráð fyrir að bjóða út frumathugun en það er alveg ljóst að af hálfu samgrn. verður ekki lagt í mikinn kostnað við það samhliða því að við leggjum á ráðin um að tvöfalda Reykjanesbrautina. Það er forgangsmál umfram það að leggja járnbraut.