Skaðabótalög

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 13:31:55 (4347)

2001-02-08 13:31:55# 126. lþ. 66.4 fundur 50. mál: #A skaðabótalög# (tímabundið atvinnutjón) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[13:31]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingu á skaðabótalögum, flutt af hv. þm. Samfylkingar en hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir er 1. flm. Frv. er mjög í anda þess málflutnings sem ég hef áður haldið fram þegar skaðabótalögin hafa verið hér til umfjöllunar en það hafa þau alltaf verið annað veifið frá því ný lög tóku gildi sumarið 1993. Frá þeim tíma hefur verið deilt um réttmæti laganna, hvort þau væru byggð á réttum útreikningsstuðlum o.s.frv. Á undanförnum árum hefur verið bætt úr þessu og gerðar breytingar á lögunum, síðast árið 1999, ef ég man rétt. Ég held að þá hafi verið gerðar breytingar á þeim lagagreinum sem hér eru til umfjöllunar.

Við breytinguna var ákveðið að til frádráttar skaðabótum fyrir atvinnutjón skyldu koma 60% af bótum lífeyrissjóðanna og bætur sjúkrasjóða verkalýðshreyfingarinnar. Jafnframt var ákveðið að 40% af eingreiðslu bóta lífeyrissjóðanna kæmu til frádráttar bótum fyrir varanlega örorku. Samkvæmt frv. er lagt til að þessi skerðing falli brott.

Í umræðunni um frv. hefur farið fram umræða um grundvallaratriði. Annars vegar segja flutningsmenn að rangt sé að draga frá skaðabótum greiðslur sem komi frá lífeyrissjóðum eða sjúkrasjóðum verkalýðshreyfingarinnar. Hins vegar hefur því sjónarmiði verið haldið á loft, og þá einkum af hv. þm. Pétri H. Blöndal, að greiðslur úr lífeyrissjóðum byggi á lögþvingun, lögum sem gildi um alla landsmenn og séu þess vegna félagslegs eðlis, séu í raun hluti af lögbundnu tryggingakerfi landsmanna þótt í lífeyrissjóðum sé. Þetta er umræða um grundvallaratriði að mínum dómi.

Að vissu marki get ég tekið undir sjónarmið hv. þm. Péturs H. Blöndals. Það verður eðlismunur á þegar lög eru sett um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða sem skylda alla landsmenn, jafnt launamenn sem aðra, til að greiða til lífeyrissjóða og félagslegra trygginga. Þegar þau lög voru til umfjöllunar hér á Alþingi var einmitt á þetta bent, að við værum að færa hluta skuldbindinga sem hafa verið inni í almannatryggingakerfinu yfir á lífeyrissjóðina. Þannig get ég að nokkru leyti tekið undir þetta sjónarmið. En á þessu eru ákveðnir annmarkar. Þó að í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða séu ákvæði um örorku eða tryggingar gegn örorku, að öllum félagslegum tryggingasjóðum eða sjóðum sem ber að skilgreina sem slíka beri að veita tryggingu gegn örorku, þá eru þessi ákvæði nokkuð opin. Hér segir í 15. gr. þeirra laga, með leyfi forseta:

,,Örorkulífeyrir skal framreiknaður samkvæmt reglum sem nánar er kveðið á um í samþykktum, enda hafi sjóðfélagi greitt til lífeyrissjóðs í a.m.k. þrjú ár á undanfarandi fjórum árum, ...`` og síðan er haldið áfram.

Hér er fjallað um það ákvæði laganna að sjóðfélagi eigi rétt á örorkulífeyri ef hann verði fyrir orkutapi sem metið er meira en 50% og hefur greitt í lífeyrissjóð í tiltekinn tíma. Upphæð örorkugreiðslna og fyrirkomulag er því tiltölulega opið og útfærslan látin lífeyrissjóðunum eftir.

Innan lífeyrissjóðanna hefur á undanförnum árum farið fram mikil umræða um hversu miklu fjármagni eigi að verja í örorkutryggingar. Sumir hafa þá viljað ganga lengra en aðrir eins og gefur að skilja. Sumir hafa lagt ríka áherslu á örorkutryggingar og viljað hafa þær sem mestar, að framfylgja þessu ákvæði laganna sem allra best fyrir þann sem verður fyrir örorku. Aðrir hafa viljað setja peningana í annað, t.d. hærri ellilífeyri, hærri barnalífeyri eða aðra þætti lífeyrissjóðsins. Þetta er fyrsta atriðið sem ég vildi kannski nefna og þá sem mótvægi við þeim rökum sem hv. þm. Pétur H. Blöndal setti hér fram. Ef við höldum því ákvæði inni í lögunum, sem hér er gerð tillaga um að breyta, þá mun það óneitanlega draga úr hvatningu lífeyrissjóðanna til að hafa þessar örorkutryggingar sem allra hæstar og traustastar.

Í annan stað vil ég taka undir það sjónarmið að þrátt fyrir þá staðreynd að lífeyrissjóðirnir gegni þessu lögboðna hlutverki, og ég ætla ekki að gera lítið úr því, tryggja menn sig gegn örorku, gegn slysum og sjúkdómum, einnig á einkamarkaðnum. Þær greiðslur sem einstaklingurinn kemur til með að fá úr slíkum sparnaði koma ekki til frádráttar skaðabótum. Þetta er kannski mergurinn málsins, að menn eru þarna að mismuna sparnaðarformum. Það segi ég þó með þeim fyrirvara sem ég hef haft á varðandi hið lögbundna hlutverk lífeyrissjóðanna.

Sama gildir um sjúkrasjóði. Sjúkrasjóðirnir eru náttúrlega ekki lögbundnir, að því er ég best veit, þeir eru samningsbundnir og mjög misgóðir. Þannig hafa t.d. sjúkrasjóðir ekki tíðkast hjá opinberum stofnunum, þar hefur veikindaréttur verið með öðrum hætti. Hið sama gildir um sjúkrasjóðina og lífeyrissjóðina, að þeir starfa á mismunandi forsendum og samkvæmt mismunandi reglum þótt það kunni að vera rangt hjá mér að þeir eigi ekki stoð í lögum. Ég skal ekki alveg um það segja en það gildir þá um launafólk. Atvinnurekandinn, sá sem er ekki launamaður á markaði, mundi tryggja sig á samsvarandi hátt hjá fjármálafyrirtækjum og greiðslur sem hann fengi úr slíkri tryggingu kæmu ekki til frádráttar samkvæmt skaðabótalögum.

Á þessum forsendum lýsi ég stuðningi við þetta frv. en hef þó á þessu þann fyrirvara að við erum að færa okkur yfir í nýtt fyrirkomulag og að því leyti tek ég undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram við umræðuna. En ég styð þetta frv.