Lækkun skatta á fyrirtæki

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 15:13:11 (4400)

2001-02-12 15:13:11# 126. lþ. 67.1 fundur 277#B lækkun skatta á fyrirtæki# (óundirbúin fsp.), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[15:13]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég hygg að það segi sig sjálft að í fjmrn. er jafnan unnið að ýmsum tillögum til endurbóta á skattkerfinu. Menn þurfa ekki annað en lesa stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar til að átta sig á því að við höfum fjarri því náð landi með allar þær breytingar á skattkerfinu sem er nauðsynlegt og æskilegt að gera. Eitt slíkra mála er einmitt það sem hæstv. forsrh. vakti athygli á á viðskiptaþingi sem hv. þm. gerði að umtalsefni, skattar fyrirtækja.

Vitanlega þarf að halda áfram að gera skattumhverfi fyrirtækjanna í landinu samkeppnishæft þannig að við missum ekki fyrirtækin úr landi og eigum þess frekar kost að laða önnur erlend fyrirtæki hingað til lands. Það gerum við m.a. með því að lækka skatthlutfallið á fyrirtækin.

Ég skal nefna fleiri skatta sem hafa verið til umræðu þó ekki liggi fyrir neinar ákvarðanir í því efni út af fyrir sig, hvorki um fyrirtækjaskatta né aðra, en þar eru til að mynda eignarskattar, stimpilgjöld og fleira sem ég heyrði ekki betur í fjárlagaumræðu en að alls kyns aðilar í salnum, sem hafa ekki látið sig miklu varða skattbyrðina af þessum sköttum, væru farnir að tala um að væru orðnir til óþurftar. Það er ýmislegt í þessum málum sem þarf að endurskoða og betrumbæta. Að því er unnið á vettvangi fjmrn. og ríkisstjórnarinnar. Engar ákvarðanir hafa verið teknar um þetta en auðvitað er þetta stefnan sem m.a. kom fram í máli hæstv. forsrh.