Ríkisútvarpið

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 16:44:29 (4448)

2001-02-12 16:44:29# 126. lþ. 67.9 fundur 413. mál: #A Ríkisútvarpið# (framkvæmdasjóður) frv., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[16:44]

Árni Steinar Jóhannsson:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breyting á lögum nr. 122/2000, um Ríkisútvarpið. Frv. stefnir að því að leggja niður framlög í framkvæmdasjóð Ríkisútvarpsins en hann átti eins og kunnugt er að tryggja viðunandi húsnæði, tækjakost og ekki síst dreifikerfi fyrir starfsemi Ríkisútvarpsins.

Í greinargerð kemur fram að um 99% heimila í landinu njóti útsendinga frá Ríkisútvarpinu en engu að síður er komin hér fram í þinginu þáltill. 13 þingmanna, margra stjórnarliða, þar sem fram kemur að um 77 heimili í landinu nái alls ekki sendingum. Einhverjar áhyggjur hafa þeir af stöðu mála ef maður les á milli línanna. Þessi 77 sveitaheimili sem þar er talað um segja nefnilega ekki hálfa söguna. Ákveðin svæði, jafnvel héruð, hafa svo lélega móttökumöguleika að varla er viðunandi. Við sem ferðumst mikið um landið vitum vel hvernig ástandið er og m.a. þess vegna er þessi tillaga komin fram.

[16:45]

Ég held að nauðsynlegt sé fyrir nefndina sem fjallar um frv. að gera sér fyllilega grein fyrir því hvernig á að standa að málum hvað varðar landsbyggðina í framtíðinni vegna þess að menn tala alltaf um að það séu svo örar framfarir. Auðvitað þarf framkvæmdasjóð til þess að standa straum af kostnaði við uppbyggingu vegna örra framfara og að sjá til þess að alltaf sé á hverjum tíma bestu skilyrði fyrir alla landsmenn til að ná sendingum Ríkisútvarpsins. ISDN-tenging á vegum Landssímans kemur vissulega til greina, en það er algjör krafa okkar í stjórnarandstöðunni að við vitum nákvæmlega hvert við erum að stefna með svona lagabreytingu. Við sjáum það nefnilega þegar verið er að fjalla um hin ýmsu mál að verið er að gera breytingar sem á seinni stigum koma niður á landsbyggðinni og rýra þjónustuna þar. Ætli það geti ekki farið svo að hlutirnir þróist þannig vegna þess að þó svo að búið sé að byggja í Efstaleiti, þá er húsnæði á vegum Ríkisútvarpsins annars staðar á landinu? Þar eru svæðisbundnar útvarpsstöðvar sem líka þurfa sinnar þróunar við. Það þarf að byggja upp og viðhalda tækjakosti á þessum stöðum, ekki bara í Efstaleitinu. Mjög mikilvægt er að til séu fjármunir til slíkra verkefna þó dreifikerfið sé að sjálfsögðu mikilvægur hlutur í þessu sambandi. Ég vil árétta að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur ávallt borið hagsmuni Ríkisútvarpsins fyrir brjósti.

Við lýstum því yfir við afgreiðslu fjárlaga í desember að við vildum stórauka framlög til Ríkisútvarpsins, einmitt til þess að gera stofnuninni kleift að standa myndarlega að uppbyggingu á dreifikerfinu, sérstaklega í sveitum þar sem því er víða mjög ábótavant. Þó að nafninu til eigi að heita svo að menn nái sendingum, þá er það alls ekki svo. Í heilu byggðarlögunum eru skilyrði þannig að varla er hægt að greina mynd á sjónvarpsskjánum vegna ,,snjókomu``. Í sumum tilvikum hefur maður hugsað sem svo hvernig í ósköpunum fólk geti unað við þetta, en það virðist vera orðið vant því.

Kona nokkur norður á Sléttu sagði við mig um daginn þegar ég gat varla greint mynd í sjónvarpinu hennar, að því er mér fannst. Hún sagði: ,,Ja, þetta er nú miklu betra en snjórinn sem var fyrir fimm árum, því þá sá ég akkúrat ekki neitt, ég fékk bara hljóðið.`` Við skulum gera okkur grein fyrir því að uppbygging á dreifikerfinu og viðunandi móttökuskilyrði fyrir Ríkisútvarpið eru alls ekki fyrir hendi um allt land. Við þurfum að standa myndarlega að þessum málum. Það verður ekki við það unað að framkvæmdasjóður sem á að tryggja þessa uppbyggingu verði lagður niður og landsbyggðin verði eina ferðina enn skilin eftir upp í vindinn án úrræða, sem er raunar verklag þessarar ríkisstjórnar, vegna þess að menn segja: Ja, það er eitthvað annað sem á að koma í staðinn, en síðan kemur ekkert. Og þetta höfum við upplifað í sambandi við umræðuna og síðan afleiðingarnar varðandi einkavæðinguna á Pósti og síma, þar sem stórlega er verið að draga úr þjónustunni úti á landi og leggja niður útibú. Það er mjög mikilvægt fyrir allra hluta sakir, ekki síst fyrir svæðisstöðvarnar, að þessi mál séu skoðuð og að fjármagn sé tryggt til þessarar stofnunar hvað varðar uppbyggingu og viðhald á húsnæði og tækjakosti ekki síst, ásamt dreifikerfinu um hinar dreifðu byggðir landsins.