Ríkisútvarpið

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 17:52:42 (4468)

2001-02-12 17:52:42# 126. lþ. 67.9 fundur 413. mál: #A Ríkisútvarpið# (framkvæmdasjóður) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[17:52]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég efast ekkert um að hæstv. menntmrh. Björn Bjarnason sjái víða teikn á lofti um einkavæðingu. Sami hæstv. ráðherra talaði fyrr í dag fyrir því að barnaskólar í Hafnarfirði yrðu einkavæddir og taldi það afar merkilega tilraun sem Hafnfirðingar vildu gera enda þótt þingsalurinn, meiri hluti þings, væri án efa mjög andvígur þeim hugmyndum í hjarta sínu og þjóðin, leyfi ég mér að halda, þessu mjög andvíg. En hæstv. ráðherra finnst þetta hið besta mál og sér náttúrlega þar sem víðar teikn um vaxandi fylgi við einkavæðingu. Ég held hins vegar að fyrir þessu tali tiltölulega þröngur hópur. Þar eru fjármálamenn og menn sem láta stjórnast af pólitískri hægri sinnaðri frjálshyggjuhugmyndafræði. Úr þeim ranni kemur að sjálfsögðu hæstv. ráðherra Björn Bjarnason og talar fyrir þessum hugmyndum.

Ég leyfi mér að halda því fram að ég hafi líka séð einhverjar skýrslur og heyrt mál manna á Norðurlöndum og víðar um heim, einnig þeirra sem þekkja vel til í útvarpsrekstri, og þar hef ég ekki orðið var við þennan vaxandi stuðning við einkavæðingu, síður en svo. Ég held að í heimi markaðshyggjunnar, þar sem markaðslögmálin eru farinn að ráða æðimiklu, sjái menn einmitt nauðsyn fyrir því að hafa hér óháðan fjölmiðil, óháðan markaðsöflunum, sem lýtur valdi og stjórn eigenda síns, þ.e. þjóðarinnar, almennings á Íslandi. Við eigum að mínum dómi að búa þannig um hnútana að Ríkisútvarpið fái að starfa óháð en sé ekki sett á klafa hjá fjármálaöflunum.